Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:22:38 (940)

1997-11-04 16:22:38# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:22]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Reykjavíkurflugvöllur er skilgreindur sem alþjóðlegur flugvöllur og sem slíkur hlýtur hann að vera opinn fyrir öllu flugi og lúta þeim reglum sem um það gilda.

Ég vil jafnframt taka það fram að auðvitað er laukrétt hjá hv. þm. að flugvallargjaldið nær til farþega sem koma til landsins en við skulum ekki gleyma því að á síðustu árum hefur mjög mikið af tekjum flugmálaáætlunar einmitt farið til að byggja upp varaflugvelli fyrir alþjóðlegt flug sem hefur það í för með sér að ódýrara verður og öruggara en ella myndi. Ég minni þar bæði á Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll. Ég minni raunar líka á að af tekjum flugmálaáætlunar hefur verið greiddur kostnaður við hina nýju flugstjórnarmiðstöð í Reykjavík sem á okkur hefur fallið. Það er því algjörlega úr samhengi að halda því fram að á þessum áratug hafi tekjur af flugmálaáætlun ekki að verulegu leyti nýst millilandafluginu.

Ég ætla ekki, herra forseti, að taka upp viðræður við hv. þm. um það hvort beri að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Ég heyri að hann hefur eingöngu í huga að hugsa um öryggi Reykvíkinga og önnur sjónarmið koma þar ekki til. Ég hef rætt þetta mál sérstaklega við flugmálastjóra og eins og fram kemur í afstöðu flugmálayfirvalda og raunar hjá borgarskipulagi Reykjavíkur, þá telja menn að hv. þm. geri of mikið úr þeim hættuþáttum og geti þess vegna tekið þessu rólegar en ella. Auðvitað ber okkur að hugsa um öryggismálin þó þau séu ekki í okkar kjördæmum og ég virði það sjónarmið þingmannsins.