Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:24:48 (941)

1997-11-04 16:24:48# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:24]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. segir með réttu að Reykjavíkurflugvöllur sé alþjóðlegur flugvöllur og ég deili að sjálfsögðu ekki um það. Ég er líka alveg sammála því að tekjur af flugi um Keflavíkurflugvöll hafa nýst til uppbyggingar á öðrum flugvöllum landsins. Það er að sjálfsögðu mjög eðlilegt. En það sem ég var aðallega að meina var að með fyrri flugmálaáætlun var ekki gert ráð fyrir neinu framlagi til Keflavíkurflugvallar þannig að hann naut þess ekki að hafa skapað allar þær tekjur sem gerðu í raun kleift að halda uppi alvöru flugmálaáætlun.

Ég ber að sjálfsögðu hag Reykvíkinga og öryggismál þeirra fyrri brjósti og ég geri ráð fyrir að það geri allir þingmenn. Ég held samt að menn geri sér ekki grein fyrir því hvað þetta lítur illa út. Ég held að við þurfum ekki annað en horfa á það þegar flugvélarnar skríða hér rétt yfir þaki Alþingishússins, að oft hlýtur að vera teflt á tæpasta vað þegar flugvélar eru að lenda með aðflugi yfir miðborgina. Ég get ekki ímyndað mér annað en að menn sjái það. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég trúi því að þeirri stefnu, að draga eigi úr flugi um Reykjavíkurflugvöll, verði fylgt með einhverju móti og þá þannig að hægt verði að skapa þá samkeppni sem er nauðsynleg þó, þ.e. að koma upp aðstöðu á Keflavíkurflugvelli sem getur tekið við því flugi sem heitir ferjuflug og minna flugi sem í raun ætti að flytjast þangað.