Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:30:10 (944)

1997-11-04 16:30:10# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:30]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð inn í fyrri umræðu um flugmálaáætlun sem liggur fyrir. Í þessari flugmálaáætlun er gert ráð fyrir því að koma fjármálum Flugstöðvarinnar í Keflavík inn á flugmálaáætlun og töluvert hefur verið unnið í málefnum flugstöðvarinnar að undanförnu. Það er vel vegna þess að það hefur einfaldlega verið þannig að fjármál hennar hafa verið í lausu lofti að því leyti til að tekin hafa verið ný lán fyrir afborgunum og fjármagnskostnaði en hér er reiknað með að því sé komið í fast horf og það skref sem hér er stigið í því er jákvætt.

Ég vildi einnig minnast á umræðurnar um Reykjavíkurflugvöll. Ég verð að segja að mér finnst hv. 10. þm. Reykn. fara í kringum það mál eins og köttur í kringum heitan graut. Hann talar um það í öðru orðinu að minnka umferðina um Reykjavíkurflugvöll, taka þar út ferjuflug og æfingaflug og í hinu orðinu um að loka flugbrautunum. Þetta er náttúrlega ósamrýmanlegt og það er miklu betra að koma bara hreint fram og segja að það eigi að loka Reykjavíkurflugvelli.

Ég er fullkomlega ósammála þessu. Ég fullyrði það --- og hef reynt það á mínum eigin skrokki því að ég flýg kannski meira en í meðallagi innan lands --- að væri Keflavíkurflugvöllur nothæfur fyrir innanlandsflugið og allir sem eiga erindi til Reykjavíkur þyrftu að fara um Keflavíkurflugvöll, keyra inn til Reykjavíkur og til baka aftur mundi það stefna innanlandsfluginu á stystu flugleiðunum í stórhættu vegna lengingar á ferðatímanum. Mér finnst dálítið hæpið að halda uppi gífurlegum áróðri um hættuna þó að ég sé ekkert að gera lítið úr öryggi í flugi. Það er allt annað mál. Hins vegar er það ekkert einsdæmi og það náttúrlega vita allir sem hafa flogið, bæði hér heima og erlendis, að flugleiðir liggja yfir þéttbýli þar sem mörgum sinnum meiri umferð er en um Reykjavíkurflugvöll. Það verður auðvitað að huga að öryggismálum í flugi og í kringum flugvöllinn og efla þau eins og mögulegt er. Því miður gerir þessi flugmálaáætun ekki ráð fyrir að farið sé eins hratt í þetta mál og æskilegt hefði verið en ég ber ábyrgð á því eins og aðrir sem leyfðu framlagningu á þessari tillögu en ég er eindreginn talsmaður þess að byggja upp Reykjavíkurflugvöll á þeim stað sem hann er nú og gera það myndarlega. Ég vona að það verði gert á næstu árum því að ég tel að hann sé nauðsynlegur hlekkur í innanlandsfluginu. Við eigum ekki að vera að rugla þá umræðu með því að segja í öðru orðinu að það eigi að minnka umferðina um hann en í hinu orðinu að það eigi að loka flugbrautunum.

Það er eitt mál sem er kannski minna í sniðum en þó mikilvægt að mínum dómi sem ég vil beina til samgöngunefndar að skoða þar sem ég hafði fyrirvara við í undirbúningi málsins. Það er að vísu ekki mjög stórt í sniðum eins og ég sagði en þó mjög mikilvægt mál en gert er ráð fyrir því að í lengingu flugbrautar á Vopnafirði séu veittar 10 millj. árið 2001. Það er nokkuð langur tími að bíða eftir lengingunni. Ég vildi koma því á framfæri í umræðunni að Flugfélag Íslands sem nú flýgur til Vopnafjarðar, en það var Flugfélag Norðurlands áður, hefur tekið í notkun vélar af Metro-gerð sem þurfa lengri brautir. Það er mjög áríðandi að hægt sé að nota þessar vélar á þessum flugleiðum. Þetta er mikilvæg flugleið á Vopnafjörð, daglegar samgöngur þangað og það er svo með Metro-vélarnar að þær eru með jafnþrýstiklefa, fljúga yfir veður og eru þægilegri fyrir farþega. Það er mjög áríðandi fyrir þá sem þurfa eins mikið á flugsamgöngum að halda og Vopnfirðingar að geta notið þeirrar þjónustu. Ég vildi beina því til samgn. sem fær málið að fara yfir þetta atriði, hvort það séu möguleikar á að bæta þarna úr.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa mörg orð um þessa áætlun. Hún er auðvitað því marki brennd eins og aðrar áætlanir að það eru mörg þörf og aðkallandi mál sem er því miður ekki hægt að sinna með þeirri áætlun sem hérna er fram sett. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það og ber auðvitað ábyrgð á því. Það er vegna þeirra markmiða sem hafa verið sett í ríkisfjármálum að reka ríkissjóð með jafnvægi. Það hefur bitnað á mörgum þáttum en eigi að síður er það nauðsynlegt markmið af efnahagslegum ástæðum.

En það voru þessi atriði sem ég vildi koma á framfæri við fyrri umr.