Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:38:00 (945)

1997-11-04 16:38:00# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:38]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. Jón Kristjánsson, 2. þm. Austurl., hafi ekki heyrt allt sem ég sagði í ávarpi mínu áðan en ég sagði það og hef sagt áður að mér finnist að af öryggisástæðum ætti að loka Reykjavíkurflugvelli. Það er ekki bara skoðun mín, það er skoðun ákveðinna borgarfulltrúa. Guðrún Ágústsdóttir borgarfulltrúi og forseti borgarstjórnar til skamms tíma lýsti því yfir í blaðagreinum og útvarpi að hún teldi að þessi flugvöllur ætti að flytjast annað. Hún sagði m.a. í þeirri umræðu að það væri skoðun sín að það ætti að setja upp einteinung til Keflavíkur til þess að koma fólki á sem skemmstum tíma á milli svæða. Ég hygg að hv. þm. muni þessa umræðu.

Ég geri mér aftur á móti grein fyrir því að í þinginu er ekki í raun vilji til þess að leggja niður flugvöllinn. Þess vegna segi ég að það sé betra að minnka umferðina og þá um leið hættuna en gera ekki neitt í málinu. Þess vegna tala ég um að þessar brautir sem allir vita að eru stórhættulegar, það er beðið um að loka 07/25 brautinni sem hv. þm. Svavar Gestsson minntist á áðan. Við vitum að norður-suður brautin liggur yfir erfið svæði. Síðan getum við einnig rifjað upp að lítil flugvél fór niður við endann á austur-vestur brautinni eða í Skerjafirðinum. Það varð uppi fótur og fit við það sem eðlilegt er en síðan hefur verið einhver ákveðin vakt þar. Ég held að ekkert sé verið að ofgera hættunni sem þarna er. Það þarf að tala um hana, menn þurfa að gera sér grein fyrir henni og það er engin ástæða til þess að blekkja sig með einhverjum þegjandahætti yfir þessu máli.