Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:46:44 (951)

1997-11-04 16:46:44# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:46]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það var annaðhvort með þeim hætti sem hv. þm. Jón Kristjánsson kom áðan inn á með mörkuðum tekjustofnum eða þá að Alþingi gæfi heimild til lántöku.

Mér er minnisstætt þegar ég settist fyrst inn á þing 1991 og fór að skoða hafnaáætlun höfðu margir þingmenn gefið fyrirheit um að það væri heimilt að hefja hafnarframkvæmdir í einu ónefndu tilteknu kjördæmi. Það merkilega við það að þeir þingmenn sem höfðu gefið fyrirheit um að hefja mætti framkvæmdir við hafnargerðir voru flestir farnir út af þingi en voru búnir að binda hendur Alþingis nokkur ár fram í tímann. Nú sé ég að það færist bros yfir andlit hv. 2. þm. Austurl., Jóns Kristjánssonar, sem hefur setið um langt árabil á Alþingi og kannast líklega við þessar vinnuaðferðir.

Ég er ekki að óska þess að slík vinnubrögð verði upp tekin aftur en ég tel að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þingið veiti samgrh. heimild til lántöku til þess að hægt sé að tryggja öryggi Reykjavíkurflugvallar þannig að framkvæmdir geti hafist á miðju næsta ári.