Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:48:09 (952)

1997-11-04 16:48:09# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:48]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt. Ég kannast við slík dæmi sem hv. þm. nefnir varðandi hafnaáætlun. En það eru vinnubrögð sem menn hafa verið að reyna að hverfa frá. Það er auðvitað rétt að ef taka á upp slíkar heimildir verður það að koma fram í lánsfjárlögum og vera þá samþykkt af Alþingi. Ég er ekki tilbúinn til að gefa yfirlýsingar í þessu máli á þessu stigi því að auðvitað eru fleiri stór verkefni sem bíða. Það er visst fordæmi í samgöngumálum sem gæti dregið langan slóða á eftir sér þannig að ég er ekki tilbúinn til að lýsa yfir stuðningi við slík áform úr þessum ræðustól. Við höfum reynt að bæta þessi vinnubrögð varðandi hafnamálin. Við höfum samþykkt hafnaáætlun en mér er fullkunnugt um þrýstinginn í þeim framkvæmdum og auðvitað er hann eins í þessum mikilvægu framkvæmdum sem í öllum samgönguþáttum. En það er rétt að ég er því samþykkur að séu slíkar heimildir veittar eigi Alþingi að samþykkja þær og þær eigi að koma fram í lánsfjárlögum.