Vegagerð í afskekktum landshlutum

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 17:16:56 (956)

1997-11-04 17:16:56# 122. lþ. 18.9 fundur 60. mál: #A vegagerð í afskekktum landshlutum# þál., Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[17:16]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir undirtektir við þessa tillögu og vona að hún eigi jafngóðu viðmóti að mæta frá fleiri hv. þm. stjórnarliðsins en þeim sem hér talaði, þ.e. hv. 3. þm. Vesturl. Ég vil einnig taka sérstaklega undir með hv. þm. að auðvitað er þessi tillaga ekki síður, og kannski fyrst og fremst, byggðamál heldur en samgöngumál. Það er alveg ljóst, enda rökstuðningur tillögunnar sá, að um sérstakt byggðaframlag eða byggðaátak verði að ræða þó að það sé í því formi að bæta samgönguaðstæður þessara landshluta.

Svo mun vera að byggðamál séu nú loksins komin á dagskrá hæstv. ríkisstjórnar. Ef ég hef tekið rétt eftir í fréttum fyrir nokkrum dögum þá kom þar fram að á fundi hæstv. ríkisstjórn hefði verið á dagskrá byggðamál og fólksflóttinn af landsbyggðinni. Það er vonum seinna að menn fái einhverja bakþanka vegna þess ástands sem þar er nú að skapast og hefur verið síðustu missirin. Staðreyndin er sú að byggðaröskunin geisar nú af meiri hraða en lengi hefur verið og minnir ástandið helst á það þegar verst var á miðjum níunda áratugnum. Enda eru aðstæður að ýmsu leyti svipaðar. Hér hafa verið teknar ákvarðanir um miklar stórframkvæmdir á suðvesturhorni landsins sem soga til sín fjármagn og vinnuafl sem valda þenslu, að minnsta kosti í vissum greinum á vinnumarkaði, á sama tíma og það sem mætir landsbyggðinni er niðurskurður ýmissa mikilvægra framkvæmda eða hefur að minnsta kosti verið undanfarin ár. Þannig hefur það verið að menn hafa mætt niðurskurði í skólamálum, heilbrigðismálum og vegamálum og auðvitað hljóta afleiðingarnar af því, þegar samtímis eru settar af stað hér miklar framkvæmdir með stjórnvaldsaðgerðum eða stuðningi, hvert álverið á fætur öðru, að enn þá meira ójafnvægi skapast í byggðaþróuninni en verið hefur og var það þó ekki glæsilegt og hefur ekki verið um langt árabil.

Eitt af því skynsamlegasta sem menn gætu gert til mótvægis til að reyna að halda þó þarna einhverju jafnvægi væri að spýta hressilega í lófana og auka framkvæmdir á mikilvægum og brýnum sviðum úti á landi og þá gjarnan helst í þeim landshlutum sem fjærst liggja höfuðborginni og kæmu sér best gagnvart því ójafnvægi sem þarna er að skapast á vinnumarkaði og í byggðaþróun.

Ég vona því að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsliðar hennar hér á Alþingi séu tilbúnir til að taka mál af þessu tagi til efnislegrar og vandaðrar skoðunar sem jákvætt innlegg í það að reyna að leysa þessi mál skynsamlega í stað þess að standa í einhverjum pólitískum áflogum um þau. Það er ekki mín ætlan og ekki minn vilji með þessari tillögu. Það má reyndar vel koma hér fram að ég kannaði hvort stuðningur væri við það hjá þingmönnum stjórnarliðsins að standa að tillöguflutningi í þessa veru. Það reyndist ekki vera svo að þeir þingmenn stjórnarliðsins sem ég leitaði til treystu sér til að standa að tillögum af þessu tagi. Ég hef kannski ekki leitað til réttu mannanna, því miður. En út af fyrir sig skil ég að mönnum finnist hendur þeirra að einhverju leyti bundnar vegna þess að þeir beri ábyrgð á framlögðu fjárlagafrv. o.s.frv. En það breytir ekki hinu að Alþingi hefur leyfi til að hafa skoðun á málinu. Alþingi getur tekið sjálfstæðar ákvarðanir í þessum efnum þó að framkvæmdarvaldið hafi ekki skilning á því, eða a.m.k. takmarkaðan, að þessi dreifing framkvæmda um landið sé vitlaus, þjóðhagslega óhagkvæm og dýr.

Byggðaröskunin er dýr. Í henni felst gífurleg sóun. Það mun að mínu mati seint ganga að bæta lífskjörin í landinu ef herkostnaðurinn vegna byggðaröskunar mælist í tugum milljarða á hverju einasta ári. Lauslega áætlað má reikna með að kostnaður vegna fólksflutninganna einna sé af stærðargráðunni 10--15 milljarðar á ári. Það munar um það ef við hefðum þá peninga í lífskjör í staðinn fyrir þá sóun sem fólgin er í því að vannýta mannvirki á einum stað en byggja ný í staðinn annars staðar. En þetta er það sem gerist við byggðaröskunina þegar 1.500 manns flytja á hverju ári af landsbyggðinni á suðvesturhornið og fyrir þá 1.500 þurfa sveitarfélögin og ríkið sameiginlega að byggja dýr mannvirki á hverju einasta ári. Það er ekki nema von að það þjóti hér upp heilir skólar með reglubundnu millibili og heil hverfi spretti upp. Hluti af þeim kostnaði sem því er samfara liggur í þessu ójafnvægi í byggðaþróun í landinu.

Þetta er því ekki bara mál þessara landshluta sem hér eiga í hlut og ekki bara mál Reykjavíkur sem fær á sig mikinn hluta af þessari skriðu, heldur allra landsmanna. Það er í þágu þess að bæta lífskjör í landinu að snúa þessari óheillaþróun við. Hún getur staðið í grófum dráttum svo lengi sem eitthvert fólk er til að flytja utan af landi og gæti þess vegna tekið á sig enn þá stórfelldari mynd í lokin því þessu má líkja að nokkru leyti við vatn sem sogast niður um svelg að stærsta gusan fer síðast þegar allt er komið á fulla ferð. Menn hafa af því áhyggjur víða að stutt sé í alvarlegan brest sem geti tæmt heilu byggðarlögin og við sæjum byggðaröskun af því taginu sem kannski hefur lítið borið á undanfarna áratugi en er þekkt frá miðbiki aldarinnar þegar heilu byggðarlögin tæmdust á fáeinum árum, á Vestfjörðum, norðurströndinni, Austfjörðum og Mið-Norðurlandi. Vonandi er vilji til að spyrna við fótum og reyna að afstýra því að svo fari, herra forseti. Ég tel að átak á þessu sviði hvað varðar það að bæta samgönguaðstæður þeirra landshluta sem þarna eru lakast settir sé eitt það allra skynsamlegasta, ef ekki bara það skynsamlegasta, sem hægt er að gera í þessum efnum. Um það er beðið. Það sem fólk nefnir þegar leitað er eftir því hvað brenni heitast á mönnum og í hverju væri mestur stuðningur að tekið væri á málum, eru samgöngur og vegirnir númer eitt, tvö og þrjú. Ég þakka því þessi orð, herra forseti, sem lutu að því frá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að draga samhengi byggðamálanna og byggðaþróunarinnar inn í þessa umræðu.