Upplýsingar um launakjör opinberra starfsmanna

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:34:06 (961)

1997-11-05 13:34:06# 122. lþ. 19.97 fundur 82#B upplýsingar um launakjör opinberra starfsmanna# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:34]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Alþingi setur lög en hefur jafnframt skyldur til að fylgjast með því að lögum sé framfylgt. Nýlega voru samþykkt upplýsingalög á Alþingi sem tóku gildi í byrjun þessa árs. Þessi lög eiga m.a. að tryggja aðgang að upplýsingum um launakjör opinberra starfsmanna, föst laun og einstaklingsbundna samninga þar sem kveðið er á um ómælda yfirvinnu, fast akstursgjald og þar fram eftir götunum. Stéttarfélögin hafa lagt mikið upp úr því að engin leynd hvíli yfir launakjörunum og á hátíðarstundum alla vega hefur hæstv. fjmrh. talað um nauðsyn á gegnsæju launakerfi.

Nú bregður hins vegar svo við að fjmrn. neitar að fara að þessum lögum og er þetta farið að torvelda allt starf í tengslum við kjarasamninga í stofnunum ríkisins. Þetta er svo alvarlegt mál að stéttarfélögin hafa þegar falið lögmönnum að skjóta málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til þess að knýja fjmrn. til þess að fara að landslögum. En þar sem ég á sæti á Alþingi taldi ég mér skylt að gera þinginu grein fyrir þessu framferði fjmrn. við þessar óvenjulegu aðstæður. Síðan mun ég óska eftir sérstakri umræðu um þetta mál hér á Alþingi þegar ljóst verður hver framvindan verður í þessu alvarlega máli.

(Forseti (GÁ): Hv. þm. hefur komið þessari skoðun sinni á framfæri.)