Kjör stjórnenda Pósts og síma hf.

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:43:47 (964)

1997-11-05 13:43:47# 122. lþ. 19.1 fundur 49. mál: #A kjör stjórnenda Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:43]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér virðist að hæstv. samgrh. hafi ekkert lært af þeim umræðum sem fram hafa farið hér síðustu daga ef svo fer sem horfir að hann ætli ekki að upplýsa hv. þm. um það sem hann biður um. Hæstv. ráðherra telur sig greinilega yfir það hafinn að þurfa að fylgja eftir þeirri þróun sem er í þjóðfélaginu um opnari stjórnsýslu. Ráðherra ber fyrir sig að hann hafi ekki skipunarvald gagnvart stofnuninni og ætlar að skýla sér bak við einhverja leynd í hlutafélagalöggjöfinni varðandi þetta ríkisrekna einkafyrirtæki. Ég minni á að hæstv. ráðherra, eftir að hafa verið flengdur af forsrh., taldi sig hafa skipunarvald yfir stofnuninni og hann er að krefja stjórn stofnunarinnar um að breyta ákvörðun sinni varðandi gjaldskrána. Ég minni líka á að þrátt fyrir hlutafélagalögin sem ráðherra ber núna fyrir sig, þá virðist forsrh. einnig hafa bolmagn til að krefja hlutafélag í ríkiseign um upplýsingar. Þetta er því auðvitað fyrirsláttur (Forseti hringir.) hjá hæstv. ráðherra og undirstrikar nauðsyn þess sem við jafnaðarmenn höfum farið fram á, að fram fari stjórnsýsluúttekt á fyrirtækinu þar sem m.a. verði upplýst um starfskjör yfirmanna.