Kjör stjórnenda Pósts og síma hf.

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:45:15 (965)

1997-11-05 13:45:15# 122. lþ. 19.1 fundur 49. mál: #A kjör stjórnenda Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég er alveg dolfallin yfir því svari sem hér kom fram. Að vísu tókst hæstv. ráðherra ekki að ljúka því en það kom þó í ljós að sex framkvæmdastjórar Pósts og síma hafa bíl til umráða. Ég skildi hann þannig að þeir hefðu einn bíl hver og þetta er mér sagt að jafnist á við ráðherrakjör. Því spyr ég nú, það væri fróðlegt að fá það upplýst, hver eru laun þessara manna?

Niðurstaðan af þessu öllu saman er sú að ráðherra ber það hér á borð að honum sé ekki heimilt að upplýsa þingheim um launakjör hjá fyrirtækjum sem eru í eigu ríkisins. Það kom reyndar á okkur þingmenn marga hverja þegar í ljós kom í umræðum um formbreytingu bankanna að þetta yrði ofan á sem auðvitað kallaði á frekari umræður. Og ef það er svo að ráðherrann (Forseti hringir.) telur sig ekki hafa lagalegar heimildir til þess að veita þessar upplýsingar, þá verðið þið bara að gjöra svo vel að breyta lögunum. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera skylda okkar að fylgjast með fyrirtækjum og stofnunum ríkisins.