Kjör stjórnenda Pósts og síma hf.

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:50:42 (968)

1997-11-05 13:50:42# 122. lþ. 19.1 fundur 49. mál: #A kjör stjórnenda Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:50]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil minna á það eins og áður að Alþb. á fulltrúa í stjórn Pósts og síma og þau svör sem hér koma fram eru byggð á svörum frá stjórn Pósts og síma. (ÖJ: Flokkarnir eiga ekki formlega aðild að stjórninni.) Ég hef því miður ekki tíma til að vitna í bréf formanns stjórnar Pósts og síma nema að litlu leyti en þar kemur m.a. fram að engar sérstakar breytingar hafa verið gerðar á greiðslum fyrir akstur í þágu fyrirtækisins að öðru leyti en því að forstjóri og fimm framkvæmdastjórar hafa til ráðstöfunar fólksbifreið sem fyrirtækið á og rekur og greiða þeir skatta og skyldur af einkanotkun sinni eins og lög og reglur kveða á um.

Það felst einnig í þessum einstaklingsbundnu samningum að ekki er um frekari greiðslur að ræða þótt einstakir menn séu kvaddir til stjórnarfunda eða til að sitja í nefndum er varða málefni fyrirtækisins eða sinna sérstökum verkefnum sem tengjast starfi þeirra hjá Pósti og síma hf. Engar breytingar voru gerðar á reglum um ferðakostnað og dagpeninga og ekki greidd risna.

Þær bifreiðar sem stjórnendur Pósts og síma eiga eru: Guðmundur Björnsson forstjóri á Subaru Legacy Wagon árgerð 1997, Bergþór Halldórsson framkvæmdastjóri á Volvo S-40 árgerð 1997, Einar Þorsteinsson framkvæmdastjóri á Mitsubishi Space Wagon árgerð 1997, Jón Þóroddur Jónsson framkvæmdastjóri á Toyota Carina E árgerð 1997, Kristján Indriðason framkvæmdastjóri á Subaru Impresa árgerð 1997, Viðar Viðarsson framkvæmdastjóri á Opel Astra Caravan árgerð 1997. Ég vona að þetta upplýsi hv. þm. og hann þekki þessa bíla ef hann mætir þeim úti á götu en það geri ég ekki.

Ég vil svo taka fram, herra forseti, í lokin að í skýrslu frá Stefáni Má Stefánssyni prófessor segir: ,,Ráðherra er því óskylt að gefa upplýsingar um ríkishlutafélag sem ekki kæmi fram í ársreikningi. Hér má t.d. nefna sundurliðaðar fjárhæðir um launakjör eða aðrar greiðslur til einstakra starfsmanna. Ráðherra er einnig óheimilt að gefa slíkar upplýsingar samkvæmt þeim meginreglum sem raktar eru í kafla IX og X.``