Framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:54:09 (969)

1997-11-05 13:54:09# 122. lþ. 19.5 fundur 161. mál: #A framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:54]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 161 hef ég lagt fyrirspurn til heilbr.- og trmrh. um framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi. Kemur þessi spurning til af því að í Tryggingastofnun ríkisins geta þeir aðilar sem eru orðnir ellilífeyrisþegar og eru að flytja af landi brott um stundarsakir fengið sérstakt eyðublaðavottorð sem þeir fylla út vegna notkunar á lyfjum. Þegar þeir síðan þurfa á frekari lyfjum að halda erlendis, þá afhenda þeir viðkomandi apótekara, eða í apóteki, þetta eyðublað sem er uppáskrift frá Tryggingastofnun ríkisins um að viðkomandi þurfi á þessum meðulum að halda. Þá gerist það að sá sem fær afhent meðulin þarf ekki að greiða neitt fyrir þau. Þess vegna hef ég lagt fram þessa fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmh.:

,,Hvaða fjárhæðir, sundurliðaðar eftir árum, hefur íslenska ríkið þurft að greiða vegna lyfjakaupa íslenskra lífeyrisþega búsettra um stundarsakir erlendis sem nýta sér rétt til hvers konar lyfjakaupa þar samkvæmt EES-reglugerð E/121, um félagslegt öryggi? Hver er heildarfjöldi lífeyrisþeganna orðinn frá því að Ísland gerðist aðili að samkomulagi um þann rétt?``