Framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:59:23 (972)

1997-11-05 13:59:23# 122. lþ. 19.5 fundur 161. mál: #A framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Þetta var athyglisvert svar, bæði frá hæstv. heilbrrh. og hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Hún bætti þó um betur með nokkrum spurningum. Það sem hins vegar kom fram í máli ráðherra og ég veit betur er að fjölmargir Íslendingar búa á erlendri grund, einmitt á Spáni sem hún sérstaklega tiltók. Þar veit ég að þeir framvísa þessum pappírum frá Tryggingastofnun ríkisins og þurfa ekkert að greiða fyrir þau meðul sem þeir fá þar afhent. Þess vegna er ég að spyrja: Er reikningurinn sendur á Tryggingastofnun ríkisins án nafns eða er hann eyrnamerktur hverjum og einum þannig að þeir fjölmörgu öldruðu Íslendingar sem búa um langt árabil erlendis geti þá átt von á bakreikningi frá ríkinu? Eða er það kannski að gerast, hæstv. heilbr.- og trmrh., að þeir öldruðu eigi von í því og sjái sér fært að koma sér á erlenda grund, sérstaklega þeir sem þurfa að borga háar upphæðir vegna meðalakaupa? Það er kannski lausn á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi málefni aldraðra að þeir muni flykkjast á sólarstrendur með þessa pappíra frá Tryggingastofnun ríkisins og njóta frírra meðala og annarrar læknishjálpar. Það er athyglisvert.