Jafnréttisráðstefna í Lettlandi

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:02:51 (974)

1997-11-05 14:02:51# 122. lþ. 19.3 fundur 107. mál: #A jafnréttisráðstefna í Lettlandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Á liðnu sumri, dagana 7.--10. ágúst var haldin jafnréttisráðstefna í Valmiera í Lettlandi á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Tilgangur ráðstefnunnar var að koma á tengslum og samvinnu milli þeirra aðila á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum sem á ýmsan hátt vinna að jafnréttismálum. Ráðstefnan bar yfirskriftina: Konur og karlar ræða saman. En hin raunverulega samræða var á milli fulltrúa frá Norðurlöndunum annars vegar og fulltrúa frá Eystrasaltslöndunum hins vegar sem augljóslega geta mikið af Norðurlöndunum lært. Jafnréttisráðstefnan kostaði að minnsta kosti 26 millj. kr. og hana sóttu um 1.300 manns. Um 52 Íslendingar með margs konar sérþekkingu á þessu sviði tóku virkan þátt í þessari ráðstefnu og erindum Íslendinganna var mjög vel tekið. Eftir ráðstefnuna hafa margir haft samband við fólk í Eystrasaltsríkjunum og óskað eindregið eftir frekari samvinnu. Þeir málaflokkar sem sérstaklega er óskað eftir samvinnu um eru t.d. sifjaspell og annað ofbeldi gegn konum, atvinnumál kvenna í dreifbýli, samvinna á sveitarstjórnarstigi um jafnréttismál, staða kvenna innan kirkjunnar, öryggismál sjómannskvenna, m.a. ekknabætur, klám og vænti, staða fatlaðra kvenna og fleiri mál. Ef um framhaldssamskipti á að vera að ræða verður að koma til einhvers konar fjárhagsleg fyrirgreiðsla. Af þeim sökum hef ég sett fram eftirfarandi fyrirspurn til félmrh. á þskj. 107, með leyfi forseta:

1. Hyggjast norrænu jafnréttisráðherrarnir stuðla að því að elfd verði tengslin sem mynduðust á ráðstefnunni í Valmiera í Lettlandi í ágúst sl. milli baltneskra og norrænna stofnana og félagasamtaka á sviði jafnréttismála? Ef svo er, hvernig?

2. Hyggst ráðherra stuðla að frekari samskiptum á milli baltneskra og íslenskra einstaklinga, stofnana og félagasamtaka á sviði jafnréttismála í framhaldi af ráðstefnunni? Ef svo er, hvernig?