Starfsmat

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:14:31 (979)

1997-11-05 14:14:31# 122. lþ. 19.4 fundur 190. mál: #A starfsmat# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Með bréfi dags. 8. mars 1995 skipaði þáv. félmrh., Rannveig Guðmundsdóttir, starfshóp sem skyldi safna upplýsingum og vinna að tillögum um starfsmat sem tæki til að draga úr launamun kynjanna. Eftir síðustu alþingiskosningar skipaði nýr ráðherra hv. þm. Siv Friðleifsdóttur formann starfshópsins. Skýrsla með afrakstri af vinnu hópsins kom síðan út og var kynnt í febrúar árið 1996.

[14:15]

Skýrslan er afar gagnleg með miklar og góðar upplýsingar. Möguleikar þess að nota starfsmat sem tæki til launajöfnunar hafa nokkrum sinnum komið til umræðu á hinu háa Alþingi undanfarin tvö til tvö og hálft ár og hefur félmrh. þá jafnan upplýst að verið væri að vinna í málinu án mikilla frekari skýringa. Því vil ég biðja hæstv. félmrh. að upplýsa okkur um nokkur atriði. Í fyrsta lagi: Að hve miklu leyti hefur verið unnið eftir tillögum starfshóps um starfsmat sem fram komu í skýrslunni sem ég nefndi áðan? Ein af tillögum hópsins var að farið yrði út í tilraunaverkefni í einni eða tveimur stofnunum á vegum ríkisins, einu einkafyrirtæki og einu fyrirtæki eða stofnun á vegum Reykjavíkurborgar. Því er önnur spurning mín til hæstv. ráðherra: Hefur tilraunaverkefni verið hrint úr vör? Ef svarið er jákvætt, hvar er þá verið að vinna slíkt verkefni? Önnur af tillögum hópsins var að ákvæði um tilraunaverkefni um starfsmat kæmi inn í endurskoðaða framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum. Því spyr ég í þriðja lagi: Hyggst félmrh. leggja til að starfsmat verði liður í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum?

Í skýrslunni kemur m.a. fram að starfsmat sveitarfélaganna sem þau hafa verið að þróa í tíu ár, byggi á þeim reglum sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur sett um sundurgreinandi starfsmat og að þrátt fyrir að það væri ekki upphaflega sett á sérstaklega til að jafna kjör kynjanna þá hafi það haft þær afleiðingar að hækka laun fyrir umönnunarstörf enda hafa þau atriði sem einkenna slík störf fengið aukið vægi í starfsmatinu og launamunur svokallaðra kvenna- og karlastarfa þess vegna minnkað verulega. Því spyr ég að lokum: Að hve miklu leyti er reynsla af starfsmati sveitarfélaganna nýtt til áframhaldandi þróunar á starfsmati á vegum félagsmálaráðuneytisins?