Dreifikerfi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:33:13 (985)

1997-11-05 14:33:13# 122. lþ. 19.6 fundur 183. mál: #A dreifikerfi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Grundvallaratriði í fjarskiptatækni er að viðtaka án truflana er ekki möguleg og þess vegna má segja að bókstaflegt svar við fyrstu fyrirspurninni er að hvergi sé hægt að tryggja sendingar án truflana. Ég held að fyrirspyrjandi, hv. þm., hafi ekki verið að velta fyrir sér þessum grundvallarþætti heldur hafi hann verið að velta fyrir sér hvar um viðvarandi léleg móttökuskilyrði væri að ræða. Svarið við því er að það er áætlað að mati Ríkisútvarpsins að tæplega 80 sveitabæir hafi lélega eða enga viðtöku sjónvarps. Erfitt er að tilgreina afmörkuð svæði en um er að ræða bæi í þröngum dölum víða um land, svo sem í Húnavatnssýslu, Dalasýslu, á Vestfjörðum og Austfjörðum. Talið er að sjónvarpið nái til 99,9% þjóðarinnar og notar það 137 senda. Þetta er hærra hlutfall en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Lauslega áætlað nær FM Rás 1 til 99,6% þjóðarinnar með 75 sendum og FM Rás 2 til 99,4% þjóðarinnar með 71 sendi þegar dreifing um sjónvarpskerfið er ekki talin með en eins og menn vita er einnig dreift útvarpsefni um sjónvarpskerfið þegar sjónvarpskerfið er ekki notað fyrir aðrar sendingar.

Léleg móttökuskilyrði eru á sambærilegum stöðum og í sjónvarpskerfinu en þó víðar þar sem FM-sendarnir eru færri.

Langbylgju- og miðbylgjustöðvar eru taldar fylla í göt í FM-dreifingunni en þess ber þó að geta að sendingar frá langbylgjustöðinni á Eiðum liggja niðri meðan endurnýjun þar stendur yfir.

Um þriðja lið fyrirspurnarinnar sem varðar sendingar á langbylgju segir í svörum Ríkisútvarpsins:

,,Til að meta útbreiðslu langbylgjunnar er nauðsynlegt að hafa bylgjueiginleika hennar í huga. Miðað við viðmiðunarstyrkinn 73 DBUVM sem talinn er góður styrkur er langdrægni nýja langbylgjusendis Ríkisútvarpsins á Gufuskálum allt frá Eyjafjöllum í suður inn á miðhálendið og til Hraunhafnartanga í norðaustur. Úti á sjó þar sem land ber ekki á milli er langdrægni miðuð við áðurnefndan viðtökustyrk um 300 sjómílur. Í reynd hafa sendingarnir heyrst um borð í skipum með betri búnaði allt frá Flæmska hattinum í vestur og til Smugunnar í austur og fregnir hafa borist um að sendingar hafi heyrst í Noregi, Þýskalandi og Bretlandseyjum. Hér innan lands má heyra sendingarnar þokkalega í sæmilegum bíltækjum frá Skaftafelli til Egilsstaða en á heimilum manna á þessum stöðum lakar eða ekki eftir tækjabúnaði. Langbylgjustöð rís á Eiðum og er gert ráð fyrir að hún heyrist vel á austanverðu landinu og víðar.``

Sem svar við fjórða lið fyrirspurnarinnar sem varðar áform Ríkisútvarpsins um aukna notkun ljósleiðara til að dreifa útvarps- og sjónvarpsefni er þetta tekið fram af Ríkisútvarpinu: Ríkisútvarpið leitar á hverjum tíma hagkvæmustu leiða sem kostur er á til dreifingar dagskrár sinnar. Breyting á því er tæplega á döfinni.

Dreifingu útvarps- og sjónvarpsefnis má skipta í tvö þrep. Fyrsta þrep er dagskrárflutningur til sendistöðvanna, svokölluð stofndreifing. Annað þrep er útsending frá sendistöðvum til almennings. Í stofndreifingu notar Ríkisútvarpið nú blandað kerfi, eigin örbylgju og ljósþráð Pósts og síma og verður svo áfram. Endanlegt svar við því í hvaða hlutföllum notaður verður glerþráður eða örbylgja í framtíðinni liggur ekki fyrir en ljóst er að glerþráður getur ekki annað stofndreifiþörfum okkar að öllu leyti vegna þess að hann liggur ekki til nokkurra aðalsendistöðva. Ugglaust verður um aukningu að ræða en hve mikil hún verður og með hvaða fyrirkomulagi er ekki ljóst á þessari stundu.