Dreifikerfi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:42:05 (989)

1997-11-05 14:42:05# 122. lþ. 19.6 fundur 183. mál: #A dreifikerfi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa gert athugasemdir sem ég er sammála í meginatriðum. Það er ljóst eins og fram hefur komið að það ber hér nokkuð á því að nokkur svæði landsins hafa ekki möguleika t.d. á að nota sjónvarp. Það kemur fram í þessum svörum að það eru 80 sveitabæir og sjómannastéttin er meira og minna án þessarar þjónustu eins og fram hefur komið. Þetta er atriði sem má ekki gleymast í umræðunni þegar rætt er um uppsetningu á dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Ég tek undir það sem fram hefur komið í því sambandi.

Mér er fullljóst að ótrufluð sending er sjálfsagt ekki til en við höfum ekki úti um landsbyggðina lagst í slíkar tæknilegar þenkingar að hugleiða hvað eru fullkomlega ótruflaðar sendingar enda heyrði ég á hæstv. menntmrh. að hann var ekki að snúa neitt út úr orðum mínum í því efni. Ég spurði eins og hann tók réttilega fram hvaða sendingar væru að jafnaði ótruflaðar og það sem ég segi að sé ótruflað er að maður gæti notið þess með venjulegum hætti án þess að sjá tvöfalt. Það er svo einfalt mál. (Forseti hringir.)

En ég vil bara undirstrika af því að tíma mínum er lokið þörfina á því að vera ætíð vakandi í þessum efnum og mér finnst satt að segja svör Ríkisútvarpsins um notkun á ljósleiðara vera heldur rýr í roðinu og þurfa að herða nokkuð róðurinn í þeim málum.