Utandagskrárumræða um málefni Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:47:51 (991)

1997-11-05 14:47:51# 122. lþ. 19.94 fundur 80#B utandagskrárumræða um málefni Sjómannaskólans# (um fundarstjórn), KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:47]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil, áður en farið verður að tala um Sjómannaskólann, upplýsa að við Guðmundur Hallvarðsson, hv. þm. báðum um utandagskrárumræðu um starfsemi Sjómannaskólans og tillögur um flutning á honum. Við höfðum beðið forseta þingsins um þessa umræðu og fengið samþykki hans fyrir því að umræðan færi fram á þriðjudaginn var. Það var eftir beiðni frá hæstv. menntmrh. að við féllumst á að fresta umræðunni, sem átti að vera viku áður, fram í þessa viku. Við töldum að það væri til þess að upplýsa málið enn betur. Það gerist svo í millitíðinni að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leggur fram fyrirspurn á þingskjali sem verður til þess að utandagskrárumræða okkar féll ekki inn í dagskrána svo hún gat ekki farið fram eins og samið hafði verið um við yfirstjórn þingsins. Ég kvartaði yfir þessu við forseta þingsins en það var ekkert að gert í þeim efnum þar sem þingskjalið lá fyrir. Ég kom aftur á móti með óundirbúna fyrirspurn á mánudaginn var. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði athugasemd við það og þá var látið að því liggja að ég hefði verið að stela þessu máli frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem var alls ekki. Ég vil ekki liggja undir því hér í þinginu að ég hafi verið að gera þetta mál að einhverju öðru en það er, á mánudaginn var í óundirbúnum fyrirspurnum.

Ég vil alls ekki kasta rýrð á mikilvægi þessa máls sem ræða á en vildi að þetta lægi fyrir í upphafi þessarar umræðu.