Húsnæðismál Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:55:57 (998)

1997-11-05 14:55:57# 122. lþ. 19.7 fundur 203. mál: #A húsnæðismál Sjómannaskólans# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. ,,Sjómannadagurinn í Reykjavík árið 1944 var með sérstökum hátíðarblæ. Þennan dag var náð nýjum áfanga í einu af sameiginlegum áhugamálum allrar sjómannastéttarinnar. Þennan dag fór fram vígsla hins nýja glæsilega Sjómannaskóla sem verið var að reisa á Rauðarárholtinu.``

Þannig segir frá í Sjómannablaðinu Víkingi, 6.--7. tölublaði 1944. Í sama blaði er birt ávarp skólastjóra Friðriks Ólafssonar og segir þar m.a.:

,,Fyrir hönd húsbyggingarnefndar Sjómannaskólans leyfi ég mér að bjóða hina háttvirtu gesti hennar og aðra sem hér eru velkomna til að vera viðstadda þá athöfn sem næst á að fara hér fram.

Ríkisstjóri Íslands ætlar nú að leggja hornstein hinnar miklu skólabyggingar sem hér er verið að reisa fyrir íslenska sjómannastétt. Sú ráðstöfun hefur verið gerð í sambandi við þessa athöfn að láta skrá á skinn aðaldrætti í sögu byggingarmálsins og geta þar þeirra manna eins og venja er til sem fara með völd í landinu, þeirra sem veitt hafa forstöðu þeim stofnunum sem þessar byggingar eiga að njóta í framtíðinni og nokkurra þeirra sem framkvæmd verksins hafa með höndum. Skýrsla þessi ásamt uppdráttum byggingarinnar verður nú lögð í blýhólk og geymd í hornsteini byggingarinnar um ókomnar aldir til fróðleiks fyrir komandi kynslóðir.

Megi skólar hinnar íslensku sjómannastéttar eflast og blómgast innan þessara veggja, stéttinni til frama og gengis en landi og lýð til gagns og blessunar.``

Svo segir og þessi skýrsla er á skinninu fræga í blýhólknum í hornsteini Sjómannaskólans. Og til að geta frammá\-manna sem þarna eiga nöfn sín geymd má nefna að ríkisstjóri var þá Sveinn Björnsson. Ráðherrar voru þá: Forsætisráðherra dr. juris Björn Þórðarson, atvinnumálaráðherra Vilhjálmur Þór, dómsmálaráðherra dr. juris Einar Arnórsson og fjármálaráðherra Björn Ólafsson. Forseti sameinaðs Alþingis var Gísli Sveinsson sýslumaður og borgarstjórinn í Reykjavík var Bjarni Benediktsson.

Herra forseti. Í ljósi þessa aðdraganda málsins og þeirrar sérstöku stöðu sem húsnæði Sjómannaskólans og Sjómannaskólinn hefur jafnan gegnt, vakti það þar af leiðandi nokkra athygli þegar fréttist að hæstv. menntmrh. hefði látið fara af stað athugun á því að flytja Sjómannaskólann úr sínu eigin virðulega húsnæði sem að vísu því miður hefur ekki verið nægjanlegur sómi sýndur og gera hann að leiguliða annarra. Ég hef því leyft mér, herra forseti, að leggja ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, svohljóðandi fyrirspurn fram til hæstv. menntmrh. um húsnæðismál Sjómannaskólans:

1. Hver er áætlaður heildarkostnaður við endurbætur á húsnæði Sjómannaskólans miðað við að þar verði annars vegar óbreytt starfsemi og hins vegar starfsemi á vegum Kennara- og uppeldisháskóla Íslands?

2. Hvenær stendur til að hefjast handa um endurbætur á húsnæði Sjómannaskólans ef hann verður áfram til húsa á sama stað?

3. Hver er áætlaður kostnaður eingöngu við flutning starfseminnar í annað húsnæði, sem og þess hluta búnaðar Sjómannaskólans sem ekki yrði endurnýjaður, og hvaða röskun yrði því samfara á skólastarfinu?

4. Hver er áfallinn kostnaður af vinnu arkitekta og annarra aðila vegna þessa máls?

5. Hvernig hefur verið háttað samráði við stjórnendur, starfsfólk og nemendur Sjómannaskólans um framtíðarlausn í húsnæðismálum skólans?

6. Hver er afstaða ráðherra til þess að Sjómannaskólinn verði áfram í eigin húsnæði eða gerist leiguliði annarra?

7. Hver er eigandi húsnæðisins sem hugmyndir eru um að Sjómannaskólinn flytjist í og hvaða viðræður hafa átt sér stað við hann um þetta mál?