Húsnæðismál Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:07:40 (1002)

1997-11-05 15:07:40# 122. lþ. 19.7 fundur 203. mál: #A húsnæðismál Sjómannaskólans# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:07]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli ásamt öðrum og vil gera verulega athugasemd við það sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sagði áðan, að það ætti að færa þennan skóla og dreifa honum helst um allt landið. (ÍGP: Ég sagði ...) Ein ástæðan fyrir því hversu illa hefur farið fyrir sjómannamenntuninni í Sjómannaskólanum á undanförnum árum er hversu dreifð hún hefur verið. Henni hefur verið dreift um landið og það hefur dregið kraftinn úr því starfi sem var byggt upp og átti að byggja upp í kringum Sjómannaskólann í Reykjavík. Sem betur fer hefur þetta verið að breytast á undanförnum tveimur árum eða svo þannig að nú er vaxandi aðsókn að Sjómannaskólanum og af þeim ástæðum tel ég að ekki eigi að þurfa að koma til að slíkar hugmyndir og nú eru í gangi verði að veruleika og þessi menntun verði flutt í annað húsnæði eins og felst í tillögum hæstv. menntmrh.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. menntmrh. endurskoði þær hugmyndir sem koma fram í menntmrn. og sjái til þess að sjómenn haldi sínu húsi.