Húsnæðismál Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:10:33 (1004)

1997-11-05 15:10:33# 122. lþ. 19.7 fundur 203. mál: #A húsnæðismál Sjómannaskólans# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:10]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég held að hið háa Alþingi ætti að sjá fáránleikann í þeim hugmyndum sem hér eru á borðinu. Menn tala um að rýna inn í nýja öld. Það er eins gott að þeir fari að setja í brýrnar því að það eru ekki nema þrjú ár þangað til, svo að það þyrfti að fara að gera einhverjar áætlanir ef þær áætlanir eiga að byggja upp framtíð menntunar sjómanna í landinu.

Það kemur í ljós að það kostar kannski um 400 millj. að gera húsi Sjómannaskólans það til góða sem þarf. Ég vil minna á að varðandi endurbætur Bessastaða --- ég er ekki að telja þá peninga neitt eftir --- er verið að tala um á annan milljarð. Ætli sjómannastéttin eigi það nú ekki inni að vera eins og hálfdrættingur á við Bessastaði með allri virðingu fyrir þeim góða stað?

Það getur vel verið að mönnum þyki það svo sem ekki stór peningur að nota 20 millj. í að flytja skólann. Það er eins og ferðakostnaður tveggja seðlabankastjóra sl. fimm ár þannig að þetta er svo sem allt í góðu. En við skulum bara hætta að láta okkur detta annað eins og þetta í hug. Auðvitað verður Sjómannaskólinn þar sem hann hefur verið. Íslenskir sjómenn eiga þennan skóla og eiga auðvitað að fá að vera þar í friði og skólann þarf að efla eins og stéttina alla og bregðast nú við þeirri kreppu sem sjómannastéttin hefur verið í á undanförnum árum. En það er vegna annarra aðgerða stjórnvalda.