Húsnæðismál Sjómannaskólans

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:15:36 (1007)

1997-11-05 15:15:36# 122. lþ. 19.7 fundur 203. mál: #A húsnæðismál Sjómannaskólans# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:15]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta mál hefur nú þróast á nokkrum mánuðum einmitt á þann veg sem ég sjálfur kaus því nú liggja fyrir hugmyndir frá skólanefndum beggja skólanna. Nú liggur fyrir hvernig við ætlum að taka á málunum til að komast að endanlegri niðurstöðu. Það hefur verið nauðsynlegt að ganga í gegnum þessar umræður, m.a. til þess að átta sig á framtíðarafnotum af Sjómannaskólahúsinu, bæði fyrir skólana, ef þeir verða þar áfram, og fyrir aðra. Og hér, eins og ég las áður, liggja fyrir tillögur frá skólanefndunum báðum um það hvernig við munum standa að þessu og þannig verður að málinu unnið. Ég held því að allur þessi bægslagangur og málefnafátækt í málflutningi hafi lítinn árangur borið því á sama tíma hafa menn verið að vinna að þessu málefnalega, niðurstöður liggja fyrir og það verður að komist að málefnalegri niðurstöðu um málið allt eins og að var stefnt.

Að því er varðar sjómannamenntunina þá held ég að um langt árabil hafi enginn menntmrh. tekið jafnafdrifaríkar ákvarðanir til þess að auka aðsókn að sjómannamenntuninni og ég, ef ég má orða það svo, því ég hef m.a. stytt siglingatímann úr 24 mánuðum niður í 6 mánuði til þess að reyna að örva aðsókn að Sjómannaskólanum. Staðreynd er að það var nauðsynlegt að taka slíkar örlagaríkar ákvarðanir, má segja, til þess að reyna að örva aðsókn að þessu námi. Einnig höfum við lagt grunn að því að endurskipuleggja námið þannig að sjávarútvegsnám verði í sjö framhaldsskólum í landinu og síðan boðið upp á tveggja ára fagnám, a.m.k. í Stýrimannaskólanum í Reykjavík, og ef nemendafjöldi leyfir á Dalvík og í Vestmannaeyjum. Hitt er líka ljóst sem hér hefur komið fram að það er áhugi bæði í Vestmannaeyjum og einnig á Akureyri og á Dalvíkursvæðinu að fá þetta nám allt þangað og við stöndum frammi fyrir ákvörðunum um það líka. Ef deilur um þetta verða svo háværar og illvígar hér þá geta menn komið og boðið eins og gert hefur verið. Það var gert varðandi iðjuþjálfana, við fluttum þá norður á Akureyri af því að í Háskóla Íslands gátu menn ekki komið sér saman um að bjóða það nám þar. Og ef menn ætla að setja á deilur um þetta hér (Forseti hringir.) þannig að skólastarfið riðlast með einhverjum hætti þá berum við ábyrgð á því að veita þá menntun á þeim stað sem menn eru viljugir til þess að gera það hvað best.