Stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:45:23 (1019)

1997-11-05 15:45:23# 122. lþ. 19.92 fundur 77#B stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil gjarnan víkja að ráðningarmálum starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ráðherra hefur afsakað pólitísk afskipti af ráðningum með því að benda á að í útvarpslögum sé beinlínis mælt fyrir um afskipti útvarpsráðs af því þegar starfsmenn dagskrár eru ráðnir. En við hv. varaþm. Mörður Árnason höfum á tveimur undanförnum þingum flutt um það tillögu á Alþingi að lögunum yrði breytt þannig að þessari kvöð yrði létt af útvarpsráði. Sú tillaga eða hugmyndafræði hefur þó ekki vakið áhuga ráðherra Sjálfstfl. Ákvæðið um sérstakar tillögur útvarpsráðs þegar ráðið er starfsfólk dagskrár er í raun arfur frá liðinni tíð þegar hlutleysisreglur Ríkisútvarpsins voru túlkaðar mun þrengra, m.a. vegna þess að fjölmiðlun í landinu var þá fyrst og fremst í höndum pólitískra flokka og Ríkisútvarpið eini ljósvakamiðillinn. Þessi staðreynd virðist líka hafa farið fram hjá Sjálfstfl. Ráðherra hefur og sent starfsmönnum stofnunarinnar þau skilaboð að ef menn vilji fá að njóta reynslu sinnar og menntunar við stöðuveitingar skuli þeir leita annað. Þetta finnst mér býsna alvarlegt mál.

Á síðasta þingi var gerð breyting á lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í anda hinnar nýju starfsmannastefnu sem gerir m.a. ráð fyrir því að forstöðumenn stofnana ríkisins ráði starfsmenn. En þegar röðin kom að Ríkisútvarpinu var annað upp á teningnum. Í tilfelli þess nægði ráðherranum ekki að skipa útvarpsstjóra heldur var því haldið áfram inni í lögunum að ráðherra skipaði einnig næstu undirmenn hans. Það er þess vegna ljóst af framansögðu, herra forseti, að vilji ráðherrans stendur til þess að afskipti stjórnmálamanna af málefnum Ríkisútvarpsins séu meiri en minni og umfram það sem er í öðrum ríkisstofnunum. Þetta hlýtur að vekja furðu og þá spurningu hvort þetta sé starfsmannastefna framtíðarinnar í augum hæstv. menntmrh.