Stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:56:37 (1024)

1997-11-05 15:56:37# 122. lþ. 19.92 fundur 77#B stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þessar umræður að bæta. Ég árétta aðeins að það eru engin rök fyrir því og ekki hægt að halda því fram með nokkru móti að Sjálfstfl. hafi lagt Ríkisútvarpið í einelti. Skárra væri það nú af einum stjórnmálaflokki að leggja slíka stofnun í einelti, þetta er alveg út í hött og ég skil ekki ef menn ætla að búa mál sitt á þessum grunni og halda uppi umræðum um Ríkisútvarpið á þessum forsendum. Það er von að hægt gangi á hinu háa Alþingi að komast að niðurstöðu um endurskoðun á útvarpslögunum og önnur slík málefni er stofnunina varða þegar menn ræða hana á þessum vitlausu forsendum. Það er algerlega rangt að halda því fram að við höfum verið að ofsækja Ríkisútvarpið með einum eða öðrum hætti. Þvert á móti hefur vegur þess vaxið undanfarið. Það hefur verið unnið að innri skipulagsbreytingum til að styrkja útvarpið sem stofnun og til að styrkja það til að takast á við þau verkefni sem það á að glíma við. Við höfum einnig sagt að lagarammanum þurfi að breyta, laga starfsemina að nýjum tæknilegum forsendum og það starf viljum við vinna. En staðreynd er að þegar málið er rætt á hinu háa Alþingi, undir forustu Alþb. og að frumkvæði þess fara umræðurnar alltaf út um víðan völl og á þetta lága plan, ef ég má orða það svo. Að halda því fram að það hafi verið gengið þannig fram við mannaráðningar á undanförnum mánuðum í Ríkisútvarpinu að það sé þeim til vansæmdar sem að því máli hafa komið er alrangt. Það hafa verið ráðnir hæfir starfsmenn til þeirra starfa sem um var að ræða og verður vonandi gert ef menn bera hag þessarar stofnunar fyrir brjósti og að það verði staðið að þeim málum með þeim hætti sem lög mæla fyrir um og á þeim forsendum sem eiga að gilda um ráðningar í opinber störf. Þetta eru þær meginniðurstöður sem ég dreg af þessum umræðum að þeir menn sem ræða Ríkisútvarpið og málefni þess á þeirri forsendu að það sé í einhverju einelti af hálfu Sjálfstfl. eru að tala um eitthvað annað en þann veruleika sem við blasir á stofnuninni og hjá okkur sem vinnum að þessum málum.