Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 11:18:09 (1028)

1997-11-06 11:18:09# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[11:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á uppsögn loðnusamningsins og bað um forsendur fyrir þeirri uppsögn. Það er að okkar mati eðlilegt að nú sé staldrað við og horft til baka og metið hvort forsendur fyrir samningnum séu enn fyrir hendi. Uppsögnin táknar ekki að hugmyndin sé að efna til ófriðar um þetta mál heldur frekar að án uppsagnar kemur ekki til alvarlegrar umfjöllunar um ýmis atriði samningsins.

Samningsmarkmið okkar eru ekki alveg fullmótuð, enda ekki eðlilegt að upplýsa þau hér í smáatriðum. En í stórum dráttum eru samningsmarkmiðin þau að tryggja farsæla stjórnun loðnuveiðanna áfram, að tryggja stöðuna til framtíðar þannig að okkar hlutur skerðist ekki vegna rúmrar stöðu hinna aðilanna samkvæmt núgildandi samningi, tryggja að ákvæði og andi Jan Mayen-samkomulagsins, sem mikilvægt er að rifja upp í hvert einasta skipti sem farið er yfir þessi mál, sé ávallt í fyrirrúmi og tryggja að allir hlutar samkomulagsins um veiðar úr loðnustofninum séu virtir og eftirlit með veiðum og upplýsingagjöf sé slík að allir aðilar geti treyst því og þetta er atriði sem er alveg nauðsynlegt að styrkja enn frekar.

Varðandi það að blanda saman öllum þessum málum, þá færði nú hv. þm. ýmis rök fyrir því að það væri ekki rétt og ég vil benda á að við höfum nýlega gert samning um skiptingu síldarinnar og þar var þessum málum ekki blandað saman. Að sjálfsögðu voru Norðmenn upplýstir um það áður en þeim viðræðum lauk að það væri okkar ætlan að segja upp loðnusamningnum og það er alveg ljóst að loðnumálinu og síldarmálinu var ekki blandað saman og ég tel það mjög mikilvægt.