Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 11:20:35 (1029)

1997-11-06 11:20:35# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[11:20]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart að talsmaður Alþfl. í þessum umræðum, eða þingflokks jafnaðarmanna eins og hópurinn víst heitir á Alþingi, ítreki þá stefnu flokksins að Íslendingar eigi að leita fast og ákveðið aðildar að Evrópusambandinu og reyna að komast yfir þær hindranir sem Alþfl. sér helstar í því efni, þ.e. hina sameiginlegu sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Sá sem flutti þetta hér áðan var ritstjóri Alþýðublaðsins til skamms tíma og í einum síðasta leiðara þess blaðs var heldur betur hnýtt upp á þessi sjónarmið og þessa stefnu og unga fólkið sérstaklega nefnt í því sambandi. Það var 16. júlí sl. ef ég man rétt.

Það er jafnframt athyglisvert að samhliða því sem Alþfl. klifar á þessu megináhugamáli sem er auðvitað skurðpunkturinn í samskiptum Íslands við umheiminn um þessar mundir, þ.e. hvort menn leggja í þessa vegferð eða ekki, skrifar viðkomandi hv. þm. grein eftir grein um að engin teljandi ágreiningsefni séu við aðra flokka í stjórnarandstöðu. Þar sé allt í rauninni tilbúið fyrir það að ganga saman í eina sæng. Það er satt að segja með ólíkindum hvernig fulltrúar Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna hér á Alþingi leyfa sér að haga málflutningi sínum í þessum efnum. Það þarf ekki í rauninni margra vitna við um það áhugamál sem þingmaðurinn viðraði hér. Evrópusambandið hefur talað skýrt fyrir sínu máli. Það hefur ekki léð máls á því að breyta hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu (Forseti hringir.) og alveg burt séð frá þeim þröskuldi er aðild að Evrópusambandinu ekki mál sem ég tek undir, sem Alþb. tekur undir. (Forseti hringir.) Það hefur ekki gert það, heldur þvert á móti.

(Forseti (ÓE): Tíminn er liðinn.)

Ég þakka, virðulegur forseti.