Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 11:48:49 (1036)

1997-11-06 11:48:49# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[11:48]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka fyrir þá skýrslu sem lögð hefur verið fram af hálfu hæstv. utanrrh. og fagna því að sá siður hefur verið tekinn upp aftur. Skýrsla af þessu tagi gefur breiðari og betri grunn til þess að ræða utanríkismálin heldur en það að hafa eingöngu ræðu hæstv. utanrrh.

Í umræðunni sem af er þessum morgni hafa menn einkum beint sjónum að Evrópusambandinu og öryggismálunum. Það tengist m.a. því að ýmis tíðindi eru að gerast hér í stjórnmálunum og stórir fundir fram undan. En eins og oft vill verða gleyma menn að horfa til framtíðar og að ræða framtíðina. Ég held, hæstv. forseti, að kannski hafi aldrei verið meiri þörf en nú á því að horfa til þeirra miklu breytinga sem eru að verða í heiminum og á heimsmálum. Þær breytingar snúa hvorki að ríkjaskipan né öryggismálum heldur kannski fyrst og fremst að hinu daglega lífi. Þá er ég að tala um miklar breytingar sem eru fram undan á vinnumarkaði alls staðar í heiminum, á félagskerfum og velferðarmálum, og ekki síst því sem menn spá að verði mál málanna á næstu öld, umhverfismálunum. Því til sönnunar, hæstv. forseti, vil ég benda á að það er nýútkomið sérhefti af tímaritinu Time sem fjallar um umhverfismál og það sem fram undan er í þeim málum, ekki síst vegna Kyoto-ráðstefnunnar sem fram undan er. Ég held svo sannarlega, hæstv. forseti, að við þurfum að gefa þessum málum miklu meiri gaum en við höfum gert hingað til.

Ég er nýkomin, eins og fleiri þingmenn, af tveimur fundum EFTA úti í Brussel og Bern, þar sem menn voru m.a. að horfa til framtíðar og þar sem tekin var fyrir skýrsla um framtíðarsamfélagið, upplýsingasamfélagið. Að þeirri skýrslu vann m.a. hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson. Af því sem þar kom fram má sjá að þvílíkar tæknibreytingar og byltingar eru fram undan að í raun og veru er erfitt að ímynda sér hver niðurstaðan verður. En það er alveg ljóst að óskaplegar breytingar eru fram undan á vinnumarkaði þar sem störfum í framleiðslugreinum mun fækka mikið en ýmiss konar þjónustustörfum tengdum þessari tækni mun að einhverju leyti fjölga en þeim mun líka fækka, m.a. í bankakerfinu. Og hvernig ætla menn að búa sig undir þessa framtíð? Hvernig á að mennta vinnuaflið? Þetta er mál sem tengir saman allan hinn vestræna heim og getur skipt sköpum um það hvort samfélögin þróast friðsamlega eða hvort þessar breytingar kunni að kalla á átök eins og gerst hefur fyrr í sögunni.

Hæstv. forseti. Það gerist eiginlega í hvert sinn sem ég fer yfir ræður og skýrslur utanrrh. að ég fer að velta því fyrir mér hvert sé hlutverk íslensku utanríkisþjónustunnar og við hvað við ráðum. Ég sé hlutverkið kannski einkum sem tvenns konar. Það er annars vegar að gæta hagsmuna Íslendinga sem víðast og að sinna góðum samskiptum við önnur ríki heims. Hins vegar að Íslendingar beiti sér þar sem þeir geta fyrst og fremst í mannréttindum, jafnréttisbaráttu, umhverfisvernd og tali máli friðar og afvopnunar.

En í ljósi þess hve krafan um aukin samskipti og aukið starf í alþjóðamálum er sífellt að aukast, eins og við finnum vel hér á hinu háa Alþingi, þá hljótum við að spyrja okkur við hvað við ráðum og í hverju við eigum að taka þátt. Ég hygg að sú nefnd sem hæstv. utanrrh. skipaði til að fjalla um framtíð utanríkisþjónustunnar hljóti að fjalla um þessar spurningar. Við kvennalistakonur eigum reyndar ekki aðild að þeirri nefnd, því miður. Þetta eru mjög áleitnar spurningar í ljósi þess hve allt þetta starf er að aukast og væri nú fróðlegt að fá að heyra sjónarmið hæstv. utanrrh. hvað þetta varðar. Við sjáum í fjárlögum fyrir næsta ár að það er vöxtur í utanríkisþjónustunni og ég held að hann sé nauðsynlegur. Það er verið að sinna nauðsynlegum verkefnum. En við hljótum að reyna að átta okkur á því hvert stefnir.

Því til áréttingar vil ég taka eitt dæmi sem einmitt kom upp á þeim fundum sem við vorum að sækja hjá EFTA. Þar var verið að kynna nýgerðan viðskiptasamning við Marokkó og í þeim viðskiptasamningi eru m.a. ákvæði um tæknilega aðstoð. Maður spyr sig: Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir þetta fyrir svona lítil samtök eins og EFTA? Auðvitað er ýmiss konar aðstoð veitt í tenglsum við þessa viðskiptasamninga. En í framhaldi af þessum reglulega fundi EFTA var haldið námskeið í Bern þar sem voru fulltrúar þjóða sem EFTA hefur verið að gera viðskiptasamninga við og eru utan Evrópusambandsins, eða samningar eru í bígerð við, t.d. fulltrúar frá Túnis, Makedóníu og ýmsum ríkjum Austur-Evrópu og ríkjum Afríku, Egyptalandi m.a. Og fulltrúar þessara ríkja koma strax fram með kröfur um aðstoð: ,,Hvernig ætlið þið að aðstoða okkur?`` Ég spyr: Á hvaða leið eru menn? Hver er stefnan og hver á stefnan að vera í þessum efnum? Þarna eru sívaxandi kröfur.

Við erum að starfa í hinum ýmsu samtökum. Ég vildi vekja athygli á þessu atriði, hæstv. forseti, því krafan er mikil frá hinum vanþróuðu ríkjum um aukna aðstoð. Ætla menn að sinna henni eða á að greina á milli þess og þess sem við höfum hingað til skilgreint sem þróunarstarf eða er stefnan sú að halda lengra í þá átt að beina aðstoð t.d. í gegnum EFTA sem að mörgu leyti er vel til þess fallið? En þetta kostar auðvitað allt saman peninga. Ég vildi vekja athygli á þessu, hæstv. forseti.

Ef við lítum yfir málefni heimsins, heiminn í heild, en bæði skýrsla utanrrh. og ræða beinast auðvitað fyrst og fremst að þeim þáttum sem snerta Ísland sérstaklega, þá eru miklar breytingar fram undan eins og ég nefndi en það er líka víða órói. Ég vil þar sérstaklega nefna ástandið í Palestínu sem veldur miklum áhyggjum. Á þessum títtnefnda fundi í Bern, voru líka fulltrúar Palestínumanna sem voru m.a. að minna á ástandið hjá sér sem auðvitað er hörmulegt og vekur upp þær spurningar hvernig og hvort við getum eitthvað beitt okkur í þeim málum því þar hefur sú friðarviðleitni sem hófst fyrir nokkrum árum því miður gengið heldur brösuglega og þarna eru mikil átök.

Ég vil einnig nefna viðskiptabannið á Írak sem var reyndar til umræðu hér fyrir nokkrum dögum. Þar er líka mikil ólga og miklar hörmungar hafa dunið yfir íbúa þess lands, ekki síst börnin. Það er sannarlega hörmung að horfa upp á það ástand og mikil spurning hvort viðskiptabannið á Írak mun skila tilætluðum árangri og hvort það eigi rétt á sér.

Þá vil ég einnig nefna Indónesíu og ástandið á Austur-Tímor, sem hefur verið mér mikið hjartans mál. Þar hefur því miður lítið þokast en þó hafa aðeins verið viðræður í gangi og mikill þrýstingur á Indónesíustjórn. En þetta tengist atriði sem einnig var rætt hér fyrir nokkru, um samskipti við ríki á borð við Indónesíu sem margbrýtur mannréttindi. Mín afstaða hefur verið sú að það eigi að tala við stjórnendur þessara ríkja, það eigi að leiða þeim fyrir sjónir inni á hvaða brautum þeir eru og það eigi að reyna að tala máli þeirra sem verða fyrir mannréttindabrotum og eru fórnarlömb þessara stjórnarhátta.

Ég vildi, hæstv. forseti, beina augum sérstaklega að umhverfismálum. Það er margt að gerast í þeim efnum. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég er ekki ánægð með stefnu Íslendinga í þeim málum. Mér finnst við ganga fram með tvískinnungi. Það er verið að auka mengun í landinu með því að reisa verksmiðjur og menn eru að leita leiða til að koma sér hjá því að þurfa að standa við þær skuldbindingar sem m.a. felast í Ríó-sáttmálanum og væntanlega verða staðfestar eða jafnvel verður gengið lengra í Kyoto. Mér finnst, hæstv. forseti, að í þessari umræðu geri menn sér ekki nægilega vel grein fyrir því hvað fram undan er og hversu gífurlega alvarleg þessi mál eru.

[12:00]

Að vísu er óskaplega erfitt að sanna hvort ýmsar þær breytingar sem orðið hafa á veðurfari og þær miklu sveiflur sem við höfum verið að sjá víða um heim á undanförnum árum eigi rót sína að rekja til gróðurhúsaáhrifa. Það er erfitt að sanna. En margir vísindamenn óttast að þessi áhrif séu að verða æ meiri. Götin á ósonlaginu fara stækkandi og það mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar um allan heim. Eyðing lands fer vaxandi meðan mannfjölgunin heldur stöðugt áfram. Mannkyninu verður gert að lifa á minna landi. Gróðurhúsaáhrifin ná til hafsins. Ég sá nýlega fræðslumynd þar sem var verið að tengja þetta saman og sýna fram á ýmsar líffræðilegar breytingar sem eiga sér stað í hafinu. Þetta tengist einnig því sem kom fram í fréttum nýlega um að jafnvel Svíar, af öllum þjóðum, hefðu varpað kjarnorkuúrgangi í Norður-Atlantshafið fyrir allmörgum árum, á sjöunda áratugnum ef ég man rétt. Þetta eru allt saman aðgerðir sem geta átt eftir að hafa og munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar á allt lífríki jarðar ef menn ekki grípa inn í. En tregðan er mjög mikil, bæði tregða iðnríkjanna sem vilja ekki hægja á þróuninni og hagvextinum og einnig þróunarríkjanna sem vilja komast á sama stig og hin vestrænu ríki. Þetta eru allt saman óskaplega alvarleg mál og ég vísa þingmönnum aftur á þetta ágæta rit Time þar sem verið er að fara yfir þetta svið en því miður eru ekki fagrar lýsingar sem þar koma fram.

Það er öllum ljóst að það er lífshagsmunamál okkar Íslendinga eins og allra þjóða heimsins að standa vörð um lífríki jarðar. Við byggjum auðvitað alla okkar afkomu á hreinleika hafsins og því að fiskstofnarnir blómstri og þar verði komið á sjálfbærri nýtingu en að við höfum gengið fram af miklu offorsi með ofveiðum á undanförnum áratugum þó að sem betur fer hafi orðið þar stefnubreyting.

Að lokum, hæstv. forseti, er mjög margt sem vert væri að ræða í skýrslu utanrrh., t.d. Evrópusambandið og ríkjaráðstefnuna sem skilaði ekki öllum þeim árangri sem menn höfðu vænst. M.a. tel ég og það hefur reyndar komið fram að ekki hafi náðst það markmið að færa Evrópusambandið eins nálægt íbúunum og margir óskuðu, m.a. Norðurlandaþjóðirnar, þó að samkomulag hafi náðst um að bæta allt upplýsingastreymi og gera ákvarðanir og upplýsingar aðgengilegri íbúum Evrópusambandsins. Það er auðvitað margt mjög athyglisvert í þessari þróun og ég vil nefna sérstaklega að Evrópusambandið hefur gert mikið átak í því að skoða framtíðina, velta fyrir sér framtíðinni og félagsmálunum og hver stefnan eigi að vera í þeim efnum og má margt af þeim læra. (Forseti hringir.)

En að lokum, hæstv. forseti, vil ég líka nefna stöðu kvenna í heiminum. Um leið og það er að gerast að konur eru að sækja í sig veðrið og komast víðar til valda, (Forseti hringir.) þá er þar líka ákveðin þróun á ferð í öfuga átt. Fátækt meðal kvenna í heiminum fer mjög vaxandi og nú orðið er talað um hinn mikla fjölda af fátækum konum sem ekki getur séð sér farborða og verður að leita ýmissa örþrifaráða sem sérstakt félagslegt fyrirbæri. Einnig þarna getum við beitt okkur til þess að bæta heiminn og það er skoðun mín að við eigum að beina þróunaraðstoð okkar í mun ríkari mæli til að aðstoða konur.