Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:05:00 (1037)

1997-11-06 12:05:00# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af þeim ummælum hv. þm. í sambandi við EFTA og hugleiðingar hennar um hvað það væri í reynd sem við réðum við. Auðvitað er það alveg ljóst og rétt hjá henni að Íslendingar ráða ekki við sömu verkefni á sviði utanríkismála og margar aðrar stærri þjóðir. En þá skiptir afar miklu máli að nýta samvinnu vel við aðrar þjóðir á ýmsum vettvangi. Ég vil nefna að við höfum reynt að nýta það sem best á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, m.a. með aðstoð okkar í Bosníu þar sem við höfum lagt verulega af mörkum. Við höfum jafnframt gert það á vettvangi Eystrasaltsráðsins þar sem við höfum tekið þátt í aðstoðarverkefnum af ýmsu tagi þó að þau séu ekki jafnstór í sniðum og margra samstarfsríkja okkar, sérstaklega Norðurlandanna. Við höfum jafnframt fullan hug á því að taka þátt í þróunarverkefnum með hinum EFTA-löndunum, m.a. í þeim löndum sem hv. þm. nefndi. En síðast en ekki síst tökum við þátt í mörgum þróunarverkefnum með hinum Norðurlöndunum, m.a. á vettvangi Norræna þróunarsjóðsins, og það er einkum í þessa átt sem við viljum beina aðstoð okkar og teljum að hún verði miklu gagnlegri í samvinnu við aðra.

Jafnframt höfum við tekið upp breytt vinnubrögð og meira samstarf við Alþjóðabankann og tökum þátt í mun meira samstarfi við hann til þess að ná meiri árangri í þessum málum. Þar get ég ekki síst nefnt Bosníu þar sem mikilvægt hjálparverkefni er í gangi með samvinnu Alþjóðabankans. Og jafnvel þó að við séum ekki stórir, þá er alveg ljóst að aðstoð okkar getur komið að verulegu gagni ef unnið er skynsamlega að málum og það gert í samvinnu við aðra.