Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:09:08 (1039)

1997-11-06 12:09:08# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það að þó að ég sé sammála hv. þm., og við virðumst vera sammála í þessum efnum, þá er líka mikilvægt að við séum beinir þátttakendur í þróunarstarfi. Það er ekki nóg að leggja fé af mörkum í gegnum alþjóðlegar stofnanir eins og við vissulega gerum og höfum alveg uppfyllt skyldur okkar í þeim efnum á allan hátt. Það er líka nauðsynlegt að við séum beinir þátttakendur og það erum við t.d. í Afríku, í Namibíu, í Mósambík, í Malaví og við erum beinir þátttakendur í hjálparstarfinu í Bosníu. Það mætti nefna ýmis önnur dæmi.

Það er oft talað um EFTA í umræðunni, að það séu lítil samtök vegna þess að það séu aðeins samtök fárra ríkja, þ.e. Liechtenstein, Íslands, Noregs og Sviss. En EFTA er í reynd mjög stór samtök ef við horfum á utanríkisviðskipti EFTA-landanna. Utanríkisviðskipti EFTA-landanna eru hlutfallslega miklu meiri heldur en utanríkisviðskipti Evrópusambandsins. Ég er að vísu ekki með tölur á hraðbergi í þessum efnum en á alþjóðlegum mælikvarða eru EFTA mjög stór samtök þegar við lítum til utanríkisviðskipta þessara landa þannig að EFTA-löndin í sameiningu geta komið miklu í framkvæmd. Það sýna líka þessir samningar um alþjóðleg viðskipti sem verið er að gera. Og það nýjasta sem er uppi á borðinu í þeim efnum er ekki aðeins fríverslunarsamningur við þessi ríki heldur er jafnframt komin í gang athugun á hugsanlegum fríverslunarsamningi milli Kanada og EFTA-ríkjanna sem er afar merkilegt mál og yrði mikill viðburður ef af yrði.