Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:45:42 (1044)

1997-11-06 12:45:42# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:45]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend upp til þess að mótmæla því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Reykn. um að Schengen-aðild gæti farið fram á forsendum ferðaþjónustunnar, að það væri eitthvert framlag til þess að auðvelda okkur ferðaþjónustu eða auka ferðamannastraum að við gengjum í Schengen. Ég held að það fari víðs fjarri. Það kunna að vera einhverjar ástæður fyrir því að menn vilji ganga í Schengen, einhverjar pólitískar ástæður eða það að menn telji t.d. auðveldara að fást við eftirlit með eiturlyfjainnflutningi og einhverju þess háttar. Ég held hins vegar að það sé alveg fráleitt að telja það að þetta mundi með einhverjum hætti efla ferðaþjónustuna. Þvert á móti hefur komið fram hjá flestum ferðaþjónustuaðilum að þeir telja að þetta mundi fyrst og fremst hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Þetta gefur auga leið. Ef við værum Schengen-aðilar þyrfti að hafa allt tvöfalt í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem núna er einföld þjónusta. Það þyrfti að hafa tvenns konar búðir fyrir Schengen-farþega og aðra farþega og allt þar fram eftir götunum.

Ég hef rætt við aðila til að mynda á Kastrup-flugvelli, sem stjórna þar málum, og ég spurði þá um afstöðu þeirra til Schengen-aðildar og þeirra svar var mjög skýrt: Við hötum það. Við höfum mjög illan bifur á þessari hugmynd vegna þess einfaldlega að hún leiðir af sér aukinn kostnað og okkur er illa við að þurfa að borga meira en við nauðsynlega þurfum. Því tel ég, virðulegi forseti, að ekki sé rétt að setja málið þannig fram eins og hv. þm. gerði, að þetta sé eitthvert framlag til ferðaþjónustunnar. Ég bendi á að það verða náttúrlega langflest ríki heimsins utan Schengen-samstarfsins. Það liggur fyrir að stórt ríki eins og Bretland og raunar Írland líka verða fyrir utan Schengen-samstarfið. Fyrirhöfn eins og það að einhverjar sálir þurfi að fá sér passa til þess að koma til Íslands mun ekki hafa nokkur áhrif til bölvunar á ferðaþjónustuna.