Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:49:29 (1046)

1997-11-06 12:49:29# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:49]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. 4. þm. Reykn. segir að það þarf að byggja upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og sú uppbygging verður okkur mjög kostnaðarsöm en hún verður hins vegar mjög arðsöm. Hér er sem betur fer að fjölga millilandakomum og fjölga farþegum sem fara um flugstöðina og það veitir bæði þjóðinni tekjur og það veitir Flugstöð Leifs Eiríkssonar tekjur. Hins vegar ef við þyrftum að fara að byggja þetta allt upp tvöfalt, eins og liggur fyrir með því að við gerðumst aðilar að Schengen mundum við vera með miklu síður arðsama framkvæmd í höndunum. Við hefðum minni ávöxtun af þeirri fjárfestingu sem er það sem þessir aðilar, bæði við sem erum skattborgarar ríkisins og tökum þátt í slíkri fjárfestingu, þurfum að horfa til, en ekki síður flugrekstraraðilarnir, þeir sem reka verslanir í flugstöðinni og aðrir.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hæstv. utanrrh. að við höfum verið að breyta rekstrarforminu. Einstaklingar reka í vaxandi mæli verslanir og vonandi gengur sú þróun enn þá lengra. Þessir aðilar þurfa þá að fjárfesta tvöfalt, vera með tvær verslanir af hverju svo dæmi sé tekið. Það gefur því auga leið að þetta er aukinn kostnaður. Menn greinir svolítið á um það hversu mikill kostnaðurinn er en menn eru samt sem áður í öllum tilvikum að tala um hundruð milljóna króna aukakostnað vegna Schengen. Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég er að vekja athygli á að það er ekki hægt, jafnvel þó fólk sé áhugasamt um það að við gerumst Schengen-aðilar, þá er algjörlega útilokað að segja að Schengen-aðildin sé eitthvert framlag til ferðaþjónustu í landinu því það er alls ekki þannig. Ég geri, virðulegi forseti, ákaflega lítið úr þeirri gríðarlegu fyrirhöfn sem menn sjá í því að taka upp passa, það er eitt handtak, og ég held að þetta sé mjög orðum aukið. Ég get hins vegar vel skilið að fyrir þessu séu pólitísk rök og einhver önnur rök. Það hefur verið talað um Schengen varðandi eiturlyfjaeftirlit og eitthvað þess háttar og það getur vel verið að það sé svo þýðingarmikið að menn vilji fórna kostnaði vegna ferðaþjónustunnar vegna þess en við skulum alls ekki að tala um að þetta sé framlag til ferðaþjónustunnar.