Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 13:32:04 (1049)

1997-11-06 13:32:04# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[13:32]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Fyrir fáeinum árum í umræðum um skýrslu utanrrh. lét ég þau orð falla að eiginlega mætti segja að utanrrn. væri orðið veigamesta ráðuneyti innanríkismála á Íslandi. Mér heyrðist á ræðu hæstv. utanrrh., sér í lagi meðfylgjandi skýrslu, sem birt er hér á Alþingi og umræðunum almennt, að þessi samlíking sé kannski ekki svo mjög út í hött. Ef til vill er það svo að stærstu ákvarðanirnar sem mestu varða um afkomu þjóðarinnar nú og í framtíðinni eru einmitt teknar á vettvangi utanríkis- og utanríkisviðskiptamála. Það sem skiptir sköpum um afkomu okkar eru markaðsmál, aðgangur að mörkuðum og viðskiptakjör, ekki síst á stærstu mörkuðum okkar, Evrópumörkuðum, þar sem EES-samningurinn hefur tryggt okkur lágmarksréttindi og beintengt okkur við innri markaðinn. Ákvarðanir sem teknar verða á þeim vettvangi, ef þær takast vel í framkvæmd um sameiginlegan evrópskan gjaldmiðil, geta skipt meiri sköpum fyrir okkur og þróun mála innan lands en hugsanlega nokkrar ákvarðanir sem teknar væru á vegum innlendra stjórnvalda í peninga- og gjaldeyrismálum --- svo ekki sé minnst á stórmál eins og utanríkis- og varnarmál sem áður fyrr skiptu þjóðinni mjög í fylkingar --- framkvæmd varnarmála, samskiptin við Alþjóðaviðskiptastofnunina og framhald þeirra samninga sem næstir eru á döfinni í þeim málum, hafréttarmálin, samninga um réttindi okkar til veiða utan eigin efnahagslögsögu og loks umhverfismálin. Þetta eru sennilega málaflokkar sem hver og einn og allir í heild skipta meira máli fyrir afkomu og framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar en margt það sem verið er að sýsla við í svokölluðum fagráðuneytum og kennd eru við innanlandsmál.

Auðvitað gæti verið ástæða til fyrir hv. þingmenn að ræða einstaka þætti þeirra mála. Þó er mönnum vandi á höndum um það í hvaða forgangsröð það á að vera. Ég ætla ekki að gera það að þessu sinni heldur ætla ég að nota þessar fáu mínútur til að biðja hv. þingmenn að hugleiða hversu byltingarkenndar breytingar hafa orðið á öllu okkar umhverfi á mjög skömmum tíma, á um það bil átta árum, og hugleiða í leiðinni í framhaldi af því hvaða áhrif þetta muni hafa á stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi, sem er meginefni skýrslunnar sem lögð hefur verið á okkar borð.

Hver hefði trúað því á fyrri hluta árs 1989 ef því hefði þá verið haldið fram að innan fárra vikna og mánaða mundi almenningur í Þýskalandi rífa niður Berlínarmúrinn með eigin höndum, þetta hataða tákn skiptingar Evrópu allt frá seinni heimsstyrjöldinni, og látið fylgja með að innan fáeinna mánaða, missira, hefðu þjóðir Mið- og Austur-Evrópu rekið af höndum sér fulltrúa erlendrar yfirdrottnunar, endurheimt sjálfstæði sitt og hafið gönguna í átt til þess að endurbyggja frá grunni þjóðfélög sín í anda lýðræðismarkaðsbúskapar og réttarríkis, að Varsjárbandalagið, þetta volduga bandalag sem hafði áætlanir um að leggja undir sig Evrópu í leifturstríði á nokkrum dögum, hryndi til grunna, að herir þeirra sem hernámu þessi lönd yrðu kvaddir heim þegjandi og hljóðalaust, að sameining Þýskalands, sem jafnvel framsýnir menn eins og Adenauer og aðrir slíkir töldu að mundi standa a.m.k. í heila öld, væri orðin að veruleika, að Eystrasaltsþjóðirnar hefðu á örskömmum tíma endurheimt sjálfstæði sitt og hefðu verið frelsaðar úr klóm gamla sovéska nýlenduveldisins, að Sovétríkin sjálf, þetta risaveldi hálfrar aldar í kalda stríðinu sem var talið jafnoki Bandaríkjanna, hyrfu eins og dögg fyrir sólu eða kannski öllu heldur eins og hátimbrað hrófatildur yfir á öskuhauga sögunnar, að Kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna, þetta volduga afl sem í 70 ár hafði boðað heimsbyggðinni aðra hugmyndafræði, yrði lýstur frammi fyrir dómstóli í Rússlandi ekki sem stjórnmálaflokkur heldur glæpasamtök? Og svona gætum við haldið lengi áfram að telja upp.

Hver hefði trúað því, ef því hefði verið haldið fram, að innan skamms tíma mundi Atlantshafsbandalagið og Rússland gera með sér samstarfssáttmála sem þýðir að búið er að koma á nánu daglegu samstarfi fastafulltrúa í höfuðstöðvum NATO og varnar- og herliðsæfingum með reglubundnum hætti milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands?

Hver hefði trúað því að innan fárra ára yrði boðað til ráðstefnu þar sem saman væru komnir tíu þjóðarleiðtogar Mið- og Austur-Evrópuríkja, þeirra þjóða sem kannski hafa orðið harðast úti fyrir böli sögunnar á 20. öldinni, lýðræðislega kjörnir menn þar sem saman væru komnir bæði þeir sem gistu gúlagið forðum daga og hinir sem voru í þjónustu nomenclaturunnar og algerlega sammála um eitt, þ.e. að framtíð þessara þjóða byggðist á því að þær gætu tryggt stöðugleika og öryggi í framtíðinni með því að ganga inn í Atlantshafsbandalagið --- nota bene Atlantshafsbandalagið undir forustu Bandaríkjanna með þeim öryggistryggingum sem það þýðir --- og í Evrópusambandið og að ákvarðanir hefðu þegar verið teknar um að þrjú þessara ríkja hæfu samningagerð um inngöngu í Atlantshafsbandalagið, sex inn í Evrópusambandið og hinum sem utan stæðu enn væri tryggt að bæði þessi samtök lýðræðisríkjanna í heiminum stæðu opin og samninganir mundu halda áfram?

Sá maður er ekki til á jarðríki sem hefði trúað því ef slík tíðindi hefðu verið sett fram sem framtíðarspá um mitt ár 1989. Samt hefur allt þetta gerst. Og þetta hefur gerst svo hratt og tíðindin hafa borist svo hratt að það á enn eftir að líða langur tími áður en menn átta sig á því hversu byltingarkenndar þessar breytingar eru og hversu gersamlega öll okkar heimsmynd hefur breyst. Reyndar má bæta við að ef einhver hefði haldið því fram undir lok seinni heimsstyrjaldar að það mundu ekki líða mörg ár áður en þær þjóðir sem bárust á banaspjótum, þ.e. Frakkar og Þjóðverjar, yrðu nánustu bandalagsþjóðir Evrópu og kjarninn í rísandi friðarbandalagi Evrópu, þ.e. Evrópusambandinu eða þá að ríki eins og Japan væri orðið eitt mesta efnahagsstórveldi heims og nánasta bandalagsþjóð Bandaríkjanna í Asíu, þá hefði enginn maður trúað því heldur.

Ef þessu hefði verið haldið fram í vísindaskáldsögu sem skrifuð hefði verið á þessum tíma, þá hefði mönnum ekki þótt taka því að lesa hana því hún hefði þótt svo fjarstæðukennd. Samt sem áður hefur allt þetta gerst. Og að ætla sér að ræða um utanríkismál núna eins og örlað hefur á hjá sumum hv. þingmönnum á forsendum þeirrar veraldar sem var fyrir árið 1989 er dapurlegt vegna þess að ef þetta allt saman, eitt og sér og allt í heild nægir ekki til að menn endurskoði afstöðu sem tilheyrir forsendum liðinnar veraldar, þá veit ég ekki hver ósköpin þurfa að ganga á til að menn endurskoði hug sinn í ljósi staðreynda.

Umræða um Evrópumál er náttúrlega eitt stærsta mál okkar samtíma. Því miður er það svo að þjóðfélag okkar er eitt af þeim --- kannski það eina í Evrópu þar sem engin viti borin umræða fer fram um þetta mikla mál og menn láta sér nægja að vísa því frá sér sem óþægilegu og umdeilanlegu þannig að í raun verður að álykta sem svo að þar látum við reka og sennilega verður það mál ekki tekið upp af alvöru af þeim sem stýra hagsmunaaðilum í þjóðfélagi okkar nema þeir standi beinlínis frammi fyrir því að þeir verði til neyddir af fjárhagslegum skammtímaástæðum. Engu að síður er mér það alveg jafnljóst og nánast meiri hluta þjóðarinnar að sú tíð kemur að við munum taka þá ákvörðun þótt við verðum kannski á seinustu skipunum meðal Evrópuþjóða. Svo er guði fyrir að þakka að EES-samningurinn bjargar þó því sem bjargað verður ef það á að taka forustumenn íslensku þjóðarinnar enn mörg ár að hugsa það mál til enda.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að biðja hv. þingmenn að hugleiða það að í samanburði við þær byltingarkenndu breytingar sem orðið hafa á skömmum tíma má kannski segja að þær breytingar sem orðið hafa á högum íslensku þjóðarinnar eftir stríð frá stofnun lýðveldis eru ekki byltingarkenndar en að mörgu leyti afskaplega farsælar. Ég er þeirrar skoðunar þegar ég lít til baka að þrjár ákvarðanir hafi skipt mestum sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar sem teknar hafa verið af forustumönnum íslensku þjóðarinnar á lýðveldistímanum. Fyrsta ákvörðunin var um stofnaðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Næst í röðinni voru ákvarðanir forustumanna lýðveldisins um að taka frumkvæði í breytingum á hafréttinum með útfærslu efnahagslögsögunnar og landhelginnar í 200 mílur í áföngum. Og þriðja ákvörðun af sama toga og svipuð að mikilvægi var ákvörðun um inngönguna í EES á sínum tíma.

Þegar við lítum yfir þetta, þá getum við sagt að þeir sem höfðu framsýni og dirfsku til að taka slíkar ákvarðanir, svo umdeildar sem þær voru allar á sínum tíma, hafa sannanlega unnið þjóðinni mikið gagn.

Ég ætla að staldra við ákvörðunina um inngönguna í NATO vegna þess að hún hefur lengst skipt þjóðinni í andstæðar fylkingar. Ég held að engum blandist hugur um það þegar við lítum til baka hversu stórkostlega skynsamlega og vel sú ákvörðun hefur reynst. Á tímabili kalda stríðsins þýddi hún það að hún tryggði öryggi þjóðarinnar og þar með skilyrði fyrir efnahagslegri farsæld okkar. Hún fyllti upp tómarúm sem ella hefði freistað árásargjarns heimsveldis til að láta til skarar skríða á Norður-Atlantshafinu. Hún tryggði siglingaleiðirnar milli hinna miklu lýðræðisheilda Evrópu og Ameríku. Hún eyddi óvissu. Hún skapaði Íslendingum sem smáþjóð stórkostlega aukin áhrif í hinu alþjóðlega samfélagi. Það er enginn félagsskapur sem hefur raunverulega aukið áhrif Íslendinga í heiminum jafnmikið og Atlantshafsbandalagið, hvort heldur til að sinna eigin hagsmunamálum, til lausnar á landhelgismálinu eða að hafa áheyrn og áhrif í samfélagi þjóðanna, eins og t.d. þegar við kusum að beita okkur fyrir stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða þegar aðrir þögu.

Við eigum að sjálfsögðu af þessu tilefni þegar við lítum til baka að lýsa yfir virðingu okkar og þakkarhug til þeirra leiðtoga lýðveldisins sem stóðu að baki ákvörðunum sem svo vel reyndust um leið og við beinum því til hv. þingmanna sem nú sjá þessa sögu eftir á í samhengi að endurskoða nú afstöðu sína til deilumála sem löngu eru liðin, grafa stríðsaxir sem ekki þarf að hreyfa lengur og mega gjarnan ryðga í jörð, vegna þess að hér tala staðreyndirnar. Og staðreyndirnar eru þær að Atlantshafsbandalagið hefur ekki aðeins reynst svo vel á tímum kalda stríðsins heldur er það í raun og veru óumdeilanlega kjarninn í því nýja og fjölþætta öryggiskerfi sem verið er að byggja upp í þessum heimshluta. Þeir sem áður voru í fylkingu kommúnista í Austur-Evrópu deila ekkert um þetta lengur. Þeir eru fremstir í hópi þeirra sem vilja leiðar þjóðir sínar inn í hið nýja öryggiskerfi vegna þess að þeir vilja endurheimta frumburðarrétt þjóða sinna til að vera í samfélagi þjóðanna, Evrópubandalaginu, Atlantshafsbandalaginu á nýrri öld. Í raun er það þyngra en tárum taki ef menn á Íslandi vilja halda áfram deilum sem enga merkingu hafa og tilheyra liðinni tíð í stað þess að draga réttar ályktanir af þessari miklu sögu.

Sjálfir hljótum við að draga ályktanir af okkar reynslu og sögu á viðsjárverðum tímum kalda stríðsins og síðar. Ég held að þær lexíur séu mjög einfaldar. Þær eru þessar: Íslendingum hefur ævinlega farnast verst þegar þeir hafa einangrað sig frá samstarfi við grannþjóðir sínar. Þeim hefur ævinlega farnast best þegar þeir hafa treyst sér til að taka fullan þátt í samstarfi við helstu grannþjóðir sínar af fullu sjálfstrausti og á jafnréttisgrundvelli. Við höfum sýnt það í reynd að við erum fyllilega menn til þess að axla þá ábyrgð og standa undir þeim skuldbindingum og jafnframt njóta þeirra réttinda sem slíkt alþjóðlegt samstarf felur í sér. Það er hin stóra lexía sem við þurfum að læra og þjóðin þarf að skapa samstöðu um í ljósi þeirrar sögu sem ég hef aðeins fjallað um.

Virðulegi forseti. Takk fyrir.