Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:05:38 (1052)

1997-11-06 14:05:38# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:05]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér var að vísu ljóst að ég mundi koma við ákaflega snöggan blett á hæstv. utanrrh. ef ég leyfði mér að gagnrýna fyrirbærið Samvörð því að þetta afkvæmi hans virðist vera honum alveg sérstaklega hjartfólgið þar sem þetta hafi fengið jákvæða athygli erlendis að það sé svona dýrmætt og vegna þess að 20 þjóðir hafi tekið þátt í þessu.

Staðreyndin er nú sú að ef við lítum á þetta út frá almannavarnagildinu sem slíku, þá vitum við Íslendingar auðvitað vel að við mundum fyrstu klukkutímana og sólarhringana væntanlega sem verulegar náttúruhamfarir yrðu hér fyrst og fremst þurfa að treysta á okkur sjálf. Að sjálfsögðu gæti verið gott, og við því að búast, að við fengjum síðan á síðari stigum málsins stuðning til að glíma við slíka hluti. En það liggur alveg í hlutarins eðli að Hvít-Rússar eru ekki komnir hingað bara eins og hendi sé veifað ef einhvers staðar gýs. Það gerist ekki þannig. Þessi æfing er því sviðsett athöfn og ekki að öllu leyti í takt við þann raunveruleika sem yrði óhjákvæmilega uppi ef skyndilegar og miklar náttúruhamfarir yrðu á Íslandi. Og af hverju er þessi sviðsetning? Hún er vegna þess að þeim aðilum sem þarna eiga hlut að máli er mjög mikið í mun að sýna umheiminum jákvæða hlið á sér. Þetta er ímyndasköpun eins og ég held að sé þýtt yfir á íslensku, það sem á löggiltu tungumáli NATO mundi heita image making. Menn eru að búa til þarna jákvæða framhlið á hernaðarbröltinu. Það er það sem ég hef gagnrýnt. Ég hef gagnrýnt að menn blandi saman annars vegar almannavörnum og borgaralegum hlutum og hins vegar þessu hernaðarbrölti. Og víðast hvar annars staðar en á Íslandi þykir það ekki góð latína að blanda saman annars vegar vörnum og hins vegar almannavörnum vegna þess að almannavarnirnar lúta öðrum lögmálum. Það þykir ekki gott t.d. að stjórnsýslulega sé þessu hrært um of saman. Þetta veit ég að hæstv. ráðherra veit þó að ótrúlega lítið færi fyrir þeirri umræðu þegar þessar æfingar fóru fram.

Varðandi nýja og breiðari skilgreiningu á öryggishlutverkinu sem við vinstri menn höfðum beitt okkur fyrir og talað fyrir, t.d. á norrænum vettvangi, þá er það hárrétt, en allt önnur Ella, hæstv. utanrrh., þó að menn vilji líta á öryggi fólks í víðara samhengi en þetta brölt sem hér fór fram.