Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:08:03 (1053)

1997-11-06 14:08:03# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þm. Steingrím J. Sigfússon þannig að hann geti nánast ekki hugsað sér að ræða þessi mál á öðrum forsendum en að Atlantshafsbandalagið verði lagt niður. Það er bara meginforsenda í öllum hans málflutningi og ef ekki er byggt á því, þá er allt ómögulegt. Ef Atlantshafsbandalagið er að breytast eins og það er, þá er það líka ómögulegt.

Auðvitað eiga sér stað alveg gífurlegar breytingar á Atlantshafsbandalaginu. Þetta er m.a. eitt af því sem kemur fram í þeim breytingum. En að menn séu eitthvað að þykjast og reyna að láta líta þannig út að þeir séu eitthvað miklu betri en þeir raunverulega eru, það er beinlínis rangt.

Af hverju skyldu þjóðir fyrrum Sovétríkjanna vilja taka þátt í þessu samstarfi? Það er vegna þess að þær vilja vinna með okkur. Við eigum ekki eingöngu að vera að hugsa um það sem getur gerst hér á landi. Það getur líka steðjað að margvísleg vá annars staðar í heiminum, í öðrum löndum. Með þessu erum við Íslendingar að leggja af mörkum og skuldbinda okkur til þess að ef eitthvað slíkt kemur upp, þá séum við líka reiðubúnir til þess að hjálpa til þegar slík ósköp koma fyrir hjá öðrum. Auðvitað sjáum við ekki allt fyrir í þeim efnum og að sjálfsögðu er ekki hægt að sviðsetja slíka atburði nákvæmlega. En við vitum að ef slíkir atburðir gerast, hvort sem það er hér á landi eða annars staðar, þá er ekki hægt að reikna með því að menn standi einir. Menn þurfa á því að halda að hafa samstarf við aðra. Ef menn ætla að skapa öryggi borgaranna, þá þurfa menn líka að leita eftir samstarfi við borgara annarra þjóða og það er verið að gera. Það er ekki verið að reyna að færa það í neinn búning. En það er sorglegt til þess að vita að menn séu svo fastir í kaldastríðstalinu að menn geti ekki unað því að Atlantshafsbandalagið er að gjörbreytast. Það er að breytast í raunveruleg friðarsamtök sem ég heyri að hv. þm. þolir ekki.