Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:28:36 (1056)

1997-11-06 14:28:36# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af Schengen-samkomulaginu, þá er það rétt hjá hv. þm. að það var undirritað samkomulag 19. desember sl. Síðan hafa forsendur breyst. Það hefur farið fram þýðing á þeim samningi sem verður væntanlega lokið 1. desember nk. Ætlunin var að leggja þennan samning sérstaklega fyrir þingið en eins og mál hafa nú þróast, þá kemur vissulega til greina að leggja allt málið fyrir þingið eins og það liggur fyrir í heild sinni. Það hefur þó ekki endanlega verið ákveðið því að það er ekki vitað hvenær þessum samningaviðræðum lýkur því þær hafa ekki einu sinni hafist.

Að því er varðar framkvæmdir sem tengjast stækkun flugstöðvarinnar, þá liggur það alveg ljóst fyrir að það þarf að stækka hana. Það er gert ráð fyrir því í þeim stækkunaráformum að það geti rúmast innan þess ramma að við gerumst aðilar að Schengen-samkomulaginu. Þessar framkvæmdir þurfa að hefjast á næsta ári og miðað við áætlanir um Schengen þarf þeim að ljúka árið 2000. Hér hefur verið gert mikið úr því að þarna séu alls konar erfiðleikar uppi. Auðvitað eru þarna viðfangsefni sem þarf að leysa en þau eru öll leysanleg og þessu samfara er ekki sá mikli kostnaður sem menn hafa gefið í skyn.

Ég vil ítreka þá skoðun mína að ég tel nauðsynlegt fyrir Íslendinga að taka þátt í þessu samstarfi og það er enginn annar möguleiki fyrir hendi ef menn vilja varðveita Norræna vegabréfasambandið.