Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:33:17 (1058)

1997-11-06 14:33:17# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það fylgja því að sjálfsögðu ákveðin vandamál að greiða fyrir frjálsri för fólks í heiminum og það fylgja því vandamál að opna landamæri. En fylgja því engin vandamál að hafa öll landamæri meira og minna lokuð? Er það einhver paradís, eins og mér finnst stundum vera talað í þessu máli? Það er sagt að um persónunjósnir sé að ræða, sem eru alvarlegar fullyrðingar. Það þarf að sjálfsögðu að fylgjast með glæpamönnum, misindismönnum og fíkniefnasölum. Það kerfi sem þarna verður notað lýtur eftirliti óháðrar sameiginlegrar eftirlitsnefndar og þar sitja m.a. fulltrúar Íslands og Noregs. Það hafa verið gerðar athugasemdir við framkvæmdina sem aðildarríkin hafa farið eftir og kerfið hérna heima, ef af verður, mun lúta yfirstjórn tölvunefndar og það verður almenn kæruleið einstaklinga.

Því er haldið fram að landið muni fyllast af fíkniefnum og mátti skilja það svo á orðum hv. þm. Það verður ekki barist gegn fíkniefnum í heiminum nema með sameiginlegu átaki og samvinnu þjóða og ég vil benda á að Schengen-samstarfið nær ekki til vörusviðsins og samkvæmt samstarfssamningnum verður tollaeftirlitið óbreytt. Það hlýtur að vera mikilvægt í þessari baráttu að hafa beinan aðgang að upplýsingum um m.a. glæpamenn og fíkniefnasmyglara til að koma í veg fyrir að þessi vá breiðist út um heiminn á þeim hraða sem raun ber vitni. Það er afar mikilvægt mál og við verðum að sjálfsögðu að taka þátt í því en ekki loka okkur inni.