Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:47:08 (1064)

1997-11-06 14:47:08# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:47]

Kristján Pálsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla ræðu á þeim mjög svo flókna málaflokki sem utanríkismálin eru sem taka á flestum þáttum mannlífsins. Vil ég leyfa mér að beina sjónum að nokkrum þáttum sem komu fram í máli hæstv. ráðherra.

Ég vil byrja á því að ræða lítillega um þau atriði sem hæstv. ráðherra nefndi í sambandi við mannréttindamál. Í ræðu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, segir hann:

,,Um það er vissulega ágreiningur hvort hafa eigi samskipti við ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin. Þetta getur verið álitamál en ég tel ekki rétt að útiloka tengsl við slík ríki, t.d. á sviði markaðsöflunar. Á móti kemur að ekki verður skorast undan því að ræða mannréttindi við ráðamenn þessara ríkja, því að mannréttindi eru ekki innanríkismál heldur grundvallarréttindi sem tilheyra einstaklingnum sem slíkum.``

Allt er þetta góðra gjalda vert en í mínum huga er ekki aðeins nægilegt að ræða mannréttindi við þjóðir eins og t.d. Kínverja. Í mínum huga verður að mótmæla ítrekuðum mannréttindabrotum og þess vegna finnst mér orðalag eins og ,,að ræða`` mjög lint. Frekar ætti að segja ,,að mótmæla`` ítrekuðum mannréttindabrotum stórþjóðar eins og Kínverja.

Að tala um að eitthvað í þessu tilliti sé álitamál finnst mér einnig frekar óheppilegt orðalag og vil þar taka sérstaklega til þær ótrúlegu kúgunaraðferðir sem Tíbetar hafa orðið að þola af hálfu Kínverja á undanförnum áratugum eða síðan Tíbet var innlimað inn í Kína. Það má að sjálfsögðu segja að allt sé álitamál og það getur verið álitamál hvort Tíbetar ættu ekki að hætta þessum mótmælum til þess að halda lífi eða fá frið. Það sé þá álitamál hvort ekki sé rétt að leyfa Kínverjum að halda áfram þeirri kúgun sem þeir hafa stundað.

Málefni Tíbeta hafa því miður fengið mjög litla umræðu almennt í okkar annars ágæta landi og þeirra málefni ekki fengið stuðning jafnvel vegna þess að Kínverjar hafa mótmælt ýmsum áformum sem uppi hafa verið af samtökum til að koma á einhverju sambandi við útlaga frá Tíbet. Aðferðir sem Kínverjar hafa beitt til þess að bæla niður alla baráttu í Tíbert eru t.d. að taka ,,óæskilegt`` fólk úr umferð með því að láta það hverfa eða fangelsa það eða setja í þrælkunarbúðir. Þetta hefur bitnað fyrst og fremst á fólki eins og munkum, nunnum og þjóðernissinnum sem hafa haldið uppi andófi.

Það hefur einnig verið tíðkað af hálfu Kínverja, það er ein aðferðin, að banna tíbetsku sem mál í skólum landsins. Það er gert að sjálfsögðu til að drepa niður alla menningu Tíbeta og sjálfsvirðingu og er það áhrifarík aðferð sem menn þekkja annars staðar frá.

Að flytja Kínverja til Tíbet er enn önnur aðferðin sem Kínverjar hafa notað til þess að koma upp þjóðflokki Kínverja í Tíbet sem styður hernámið og innlimun landsins í Kína.

Ég held að það sé seint of mikið talað um hversu mannréttindabrot eru tíð í þessu stóra og mikla landi, Kína, en á liðnu ári voru líflátin um 3.500 manns í því landi og á þessu ári einu, það sem af er, hafa verið kveðnir upp sex þúsund líflátsdómar. Það segir náttúrlega margt um það dómskerfi sem þarna er en þær upplýsingar og tölur sem ég hef farið hér með koma frá Amnesty International. Þessir dómar eiga ekkert frekar við glæpamenn, ef við getum orðað það svo, en fólk sem er fangelsað vegna trúarbragða og dæmt vegna þjóðernisstefnu sinnar eða af öðrum ástæðum.

Ég hef gert þetta hér að umræðuefni fyrst og fremst, herra forseti, í ljósi þeirra atburða sem urðu hér á landi fyrir nokkrum vikum síðan þegar varaforseti Tævans kom í heimsókn og olli miklum titringi vegna aðgerða Kínverja sjálfra. Það er að sjálfsögðu alltaf viðkvæmt að ræða mál sem þessi en ég held að þegar um mannréttindamál er að ræða, þá getum við ekki látið viðkvæmni í garð stórríkja ráða þar för. Við sem erum tiltölulega nýfrjáls frá Dönum getum sjálf séð fyrir okkur hvernig farið hefði fyrir okkur ef slíkum aðferðum hefði verið beitt eins og beitt hefur verið í Tíbet á undanförnum áratugum. Mér finnst mannréttindamál ekki álitamál og tæpitunga ekki duga þegar um þau er rætt.

Ég er að sjálfsögðu ekki að gera því skóna að hæstv. utanrrh. samþykki þau brot sem þarna hafa verið, fjarri því. Ég er einungis að tala um að mér finnist að það megi hafa um það ákveðnara orðaval þannig að það skiljist fyllilega um hvað verið er að tala.

Frjáls för fólks er snar þáttur í máli sem mikið hefur verið í umræðunni hér og eins hjá Evrópubúum, og EES-samningurinn sem er einn af þeim stóru samningum sem þessi þjóð hefur gert, hefur tryggt okkur Íslendingum. Ég vil fagna því hvernig hæstv. ráðherra hefur haldið á þeim málum sem tengjast Evrópu og hugsanlegri Schengen-aðild og ég hygg að það sé einn af þeim hornsteinum sem muni tryggja okkar samstarf í Evrópu enn frekar en gert hefur verið með EES-samningnum. Við höfum góða reynslu af EES og þeim jákvæðu áhrifum sem samningurinn hefur haft á íslenskt þjóðlíf almennt. Segja má að með EES-samningnum hafi frjálsræði orðið mun fyrr á ýmsum sviðum en ella hefði orðið og eru þar nærtæk dæmi eins og innanlandsflug sem gefið var frjálst og leiddi til þess að fargjöld innan lands lækkuðu mjög verulega. Við höfum einnig séð ýmislegt annað, eins og að ríkisfyrirtæki hafa verið gerð að hlutafélögum og við höfum séð alls konar lög eins og upplýsingalög og samkeppnislög sem hafa tengst EES-samningnum á einn eða annan hátt.

EES-samningurinn hefur einnig skapað Íslendingum með mörgu móti frjálsari aðgang að atvinnu í Evrópu, frjálsari flutninga og viðskipti, sem hefur aðeins leitt til góðs fyrir þetta litla land okkar. Ég tel því að með Schengen séum við að auka þessi tengsl, við séum að tryggja enn frekar samstarf okkar inn í Evrópu og það getum við ekki gert öðruvísi en að tengjast Evrópusambandinu enn nánari böndum. Ef við tengjumst ekki inn í Evrópu með Schengen er ég hræddur um að það mundi leiða til einangrunar landsins og verri samskipta. Ég er sammála þeim fullyrðingum sem hér hafa komið fram að Schengen mun auka ferðamannastraum og auðvelda ferðalög Evrópubúa til Íslands. Það mun einnig auka eftirlit með óæskilegum mönnum og innflutningi sem óæskilegur er talinn, vegna eftirlitskerfis sem talað er um að verði sett sameiginlega fyrir öll Schengen-löndin.

Ég hef ekki heyrt það í kerfinu, ef ég má orða það svo, hjá tollyfirvöldum og lögregluyfirvöldum að þau óttist Schengen-sáttmálann og að hann muni auka til að mynda glæpi eða innflutning á óæskilegum efnum nema síður væri. Ég hef heyrt hina skoðunina frekar, að menn telji að þetta eftirlit muni batna og verða virkara og upplýsingar ganga mun fljótar og öruggar fyrir sig.

Þróunin innan Vestur-Evrópusambandsins, VES, hefur í mínum huga verið mjög jákvæð, bæði með tengingu við NATO vegna sameiginlegra nota á herafla landanna til friðargæslu og eins Amsterdam-samkomulagið sem tryggir að VES verði ekki sett undir Evrópusambandið. Ég er mjög sammála þeirri stefnu hæstv. utanrrh. að halda okkur með Bretum hvað þetta varðar enda hefur að mínu viti ekki komið fram nein sérstök röksemd sem réttlætir að þetta samband, sem hefur verið samband miklu fleiri þjóða heldur en eingöngu Vestur-Evrópuþjóða því þarna hefur verið sameiginlegur vettvangur til varnarmála og öryggismála þjóða fyrrum austantjaldsríkja og annarra sem hyrfi eða raddir þeirra yrðu mun lágværari ef þessi samtök, Vestur-Evrópusambandið, félli undir Evrópusambandið.

Að lokum vil ég, herra forseti, ræða aðeins um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og þakka hæstv. utanrrh. fyrir þann vilja sem hann hefur sýnt í því að reyna að leysa fjárhagsvanda stöðvarinnar. Það hefur á undanförnum árum verið eitt helsta vandamál stöðvarinnar hversu skuldabagginn hefur verið erfiður og allt starf nánast snúist um það að reyna að hafa upp í þann mikla kostnað sem honum fylgir. Möguleikar Leifsstöðvar og flugvallarins í Keflavík hafa verið stórlega vanmetnar í atvinnulegu skyni á undanförnum árum og er því fagnaðarefni að sú uppbygging er þegar komin á alvöruskrið að stækka flugstöðina og samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra á það að gerast á næstu sjö árum að hún verði stækkuð fyrir sem nemur 2,8 milljörðum kr. Það kemur að sjálfsögðu til móts við mjög stórbrotnin áform Flugleiða um að auka flugrekstur sinn verulega sem mun skapa ný störf hjá því ágæta fyrirtæki fyrir um þúsund manns eftir því sem sagt hefur verið. Að sjálfsögðu getur komið þarna miklu meira til.

Ég vil einnig fagna því frjálsræði sem hefur verið í verslunarmálum stöðvarinnar og þau skref sem þegar hafa verið stigin eru jákvæð.

Ég vil þó taka eitt sérstakt atriði út sem mér finnst að þurfi að taka á með meiri festu, en það er frjálsræði í afgreiðslu borgaralegs flugs sem er nú bundið einokunarsamningi við eitt fyrirtæki. Ég vildi, herra forseti, að lokum beina spurningu til hæstv. utanrrh.: Hvað líður samningum við Flugleiðir um uppsögn á þeim einokunarsamningi sem þeir hafa haft á borgaralegu flugi á Keflavíkurflugvelli?

Ég vil einnig beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort umsókn Suðurflugs um heimild til afgreiðslu minni véla á Keflavíkurflugvelli hafi verið tekin til jákvæðrar skoðunar í hans ráðuneyti.