Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:04:45 (1067)

1997-11-06 15:04:45# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir það að samhliða ræðu utanrrh. höfum við fengið þessa ágætu skýrslu hans um utanríkismál, um stöðu Íslands og breytingar og horfur í alþjóðlegu umhverfi. Það er auðvitað þannig að þegar ráðherra semur sína skýrslu, þá verður hann að takmarka sig mjög eins og oft hefur komið fram við umræðu sem þessa og mörgum þáttum getur hann gert harla lítil skil, en fyrir okkur sem viljum ræða þessi mál er mikilvægt að geta farið yfir skýrsluna eins og hún er lögð fram hér og séð þá hvað er á bak við orð hans í ræðunni. Þess vegna er mjög gott að fá þessa skýrslu samhliða ræðunni.

Virðulegi forseti. Alþjóðasamstarf er orðinn viðamikill þáttur í störfum Alþingis og reyndar ráðuneytanna en í umræðu eins og þessari er aðeins að takmörkuðu leyti komið inn á þau mál sem þingmenn, sem taka þátt í erlendum samskiptum, koma að. Við tökum reyndar sérstaklega fyrir einu sinni á vetri skýrslur alþjóðadeildanna en það er svo undarlegt að við þær umræður á Alþingi hefur reyndin orðið sú að þeir einir ræða þær skýrslur sem skipa viðkomandi landsdeild. Hún nær ekki til þeirra sem henni er beint að, sem sagt annarra þingmanna sem ætlast er til að ræði hin stóru mál. Mér er það nokkurt umhugsunarefni með hvaða hætti hægt er að finna farveg sem tengir alþjóðastarfið betur við þingið og hvernig kryfja má mörg þau stóru mál sem skipta okkur máli.

Í þessari umræðu hefur t.d. verið vikið að Schengen og stór orð látin falla. Íslandsdeild Norðurlandaráðs hélt sérstaka ráðstefnu um það mál á sínum tíma og þau vinnubrögð reyndust mjög upplýsandi. Ég, sem lít á Norðurlandasamstarfið sem þýðingarmesta alþjóðasamstarf okkar, tel að það sé mjög brýnt að hér sé skoðað hver áhrif Amsterdam-samningsins verða á Norðurlöndin, bæði þau sem eru innan og þau sem eru utan Evrópusambandsins. Við eigum þess vegna að leita leiða til að upplýsa sem mest um ágreiningsmálin til að geta tekið ákvarðanir sem snerta hag okkar. Í of ríkum mæli er gripið til þess að víkja undan og hverfa á braut, víkja umræðunni á dreif eða jafnvel ekki taka hana á dagskrá. En ég ætla ekki að nota minn tíma í málefni sem lúta að erlendu samstarfi né ágreiningsmálunum sem borið hafa á góma hér í dag.

Ég vil draga mannréttindamálin frekar inn í þessa umræðu. Þau eru mjög sjaldan rædd á Alþingi og of lítið í hefðbundnum utanríkisumræðum. Hins vegar hefur það komið fram í máli ráðherra að hann hafi áhuga á þeim málum. Þannig var það í fyrra að tvær línur stóðu í ræðu hans og þær hljóðu svo:

,,Enginn þarf að fara í grafgötur um stuðning íslenskra stjórnvalda við baráttu fyrir mannréttindum. Enginn þarf heldur að efast um einlægni okkar og jákvæðan tilgang með þátttöku á þessum vettvangi.``

Þetta eru falleg orð og þetta er góð yfirlýsing. Þá tók ég þetta fyrir í tilefni af stöðu flóttamanna. Þá var stór flóttamannaherferð í gangi sem allar deildir Amnesty tóku þátt í. Það er reyndar eitt alvarlegasta mannréttindamálið í dag hver staða flóttamanna er og orsökin fyrir þessu mikla flóttamannavandamáli. Það er mjög alvarlegt ástand víða. Hér var áðan í ræðu nefnt ástandið í Kína, en það er líka hægt að nefna Alsír þar sem hörmulegir atburðir hafa verið að gerast.

Ég hef haldið því fram mörgum sinnum að Ísland geti verið sterk rödd á alþjóðavettvangi, geti unnið að því að minnka flóttamannavandamálið með því að stuðla að því að ríki heims séu knúin til að virða mannréttindi og að þau skynji að alþjóðasamfélagið fylgist með gjörðum þeirra og allir láti sig það varða hvar brotið er á mannréttindum. Okkar rödd getur verið skýr í mannréttindamálum og getur verið krafa um sameiginlegt átak þjóða heims til að fyrirbyggja gífurlegan fjölda flóttamanna í heiminum. Í fyrra bar ég fram fyrirspurn til dómsmrh. um formlega endurskoðun á lögunum um eftirlit með útlendingum og hvort endurskoðun á þeim lögum taki mið af því að tryggja réttarvernd þeirra sem leita hér hælis eins og hugtakið er skilgreint samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa fullgilt, hvort flóttamenn munu fá ráðgjöf, túlk og réttaraðstoð og að bann við brottvísun og endursendingu flóttamanna verði tryggt eins og það er í flóttamannasamningnum en ekki í lögum okkar. Hvort það sé tryggt að synjun á beiðni um hæli verði skrifleg og rökstudd og áfrýjun hennar fresti ákvörðun um synjun landgöngu, brottvísun eða endursendingu. Þetta eru allt hlutir sem komið hafa upp og orðið fréttaefni hér. En það bólar enn þá ekki á lagasetningu þrátt fyrir yfirlýsingar á síðasta þingi og ég spyr utanrrh.: Veit hann hvað þessu máli líður og mun hann beita sér í því að þessi brýnu frumvörp komi hér inn í þingið? Það er heilt ár liðið síðan spurt var um þau og ekkert bólar á þeim.

En hvað er til ráða? Flóttamannavandamálið er gífurlegt. Við höfum tekið á móti nokkrum tugum flóttamanna. Þetta fólk hefur aðlagast vel hjá okkur og því hefur verið tekið vel. Annars vegar verða þjóðir heims að bregðast við flóttafólki og hjálpa þeim sem hrekjast frá heimalandi vegna ofsókna. Hins vegar að leggja allt á vogarskálar til að tryggja að fólk hrekjist ekki á flótta vegna mannréttindabrota. Alþjóðleg samtök Amnesty vaka yfir þessum málaflokki. Þau reyna að vekja okkur sem búum við öryggi til umhugsunar og senda þingi og þjóð ákall vegna mannréttindabrota og hvatningu til að standa að jákvæðum aðgerðum. Og hvað er þá til ráða?

Ísland á að styðja stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls á vegum Sameinuðu þjóðanna og stuðla þannig að því að endir verði bundinn á refsileysi þeirra sem brjóta alþjóðalög. Það eru bein tengsl milli mannréttindabrota og svokallaðs refsileysis. Mannréttindabrot sem eru framin í skjóli refsileysis virðast endurtaka sig og fljótt er hægt að greina ferli ofsókna og glæpa í samfélögum sem ákveða að þegja slíkt í hel. Mannréttindasamtökin Amnesty hafa getað staðfest að bein tengsl eru á milli mannréttindabrota og svokallaðs refsileysis. Mannréttindabrot sem eru framin í skjóli refsileysis í samfélögum sem þegja slíkt í hel eða hylma yfir og hunsa lög og reglur eru vegna þess að önnur ríki láta sig þetta ekki varða. Samt eru ríki samkvæmt alþjóðalögum skuldbundin til að draga stríðsglæpamenn eða aðra sem gerast sekir um mannréttindabrot til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar. Þá má sömuleiðis framselja. Hins vegar hafa ríkisstjórnir komist upp með að setja lög sem tryggja náðun brotamanna eða gefa þeim grið. Af þessum sökum er mjög mikilvægt að Íslendingar stuðli með virkum hætti að stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls svo hægt sé að binda endi á refsileysi þeirra sem brjóta alþjóðalög.

Ísland tengdist yfirlýsingu sem utanrrh. Írlands flutti af hálfu Evrópusambandsins á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á sl. ári þar sem fram kemur stuðningur við stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls. Virk þátttaka Íslands í frekari umræðum um stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls er æskileg þannig að Ísland stuðli á afgerandi hátt að því að slíkur dómstóll verði orðinn að veruleika árið 2000. Það hefur vakið athygli að sæti Íslands á fundum undirbúningsnefndar fyrir stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls hjá Sameinuðu þjóðunum hefur verið autt og Íslendingar hafa ekki tekið þátt í fundum nefndarinnar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sett á fót tvo dómstóla sem fjalla um stríðsglæpi. Í febrúar 1993, fyrir fjórum árum, samþykkti öryggisráðið stofnun stríðsglæpadómstóls sem skyldi fjalla um brot í gömlu Júgóslavíu, framin eftir að styrjöld braust þar út árið 1991. Þá voru sett lög á Alþingi í maí 1994 um framsal og samvinnu við stríðsglæpadómstólinn vegna gömlu Júgóslavíu og þann dómstól í Haag. Í árslok 1994, ári síðar, samþykkti öryggisráðið að setja á fót stríðsglæpadómstól vegna þjóðarmorðs í Rúanda fyrr á því ári. Dómstóllinn sem er í Arusa í Tansaníu hefur ekki hlotið nægilegan stuðning aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Það er mikilvægt að Alþingi Íslendinga setji lög um framsal og samvinnu við Rúanda-dómstólinn á sama hátt og við gömlu Júgóslavíu. Stuðningur við Rúanda-dómstólinn er gífurlega mikilvægur til að tryggja að mannréttindi verði virt. Við eigum að sýna fullan stuðning við störf Júgóslavíu- og Rúanda-dómstólana og stuðla með virkum hætti að stofnun alþjóðlegs stríðsglæpadómstóls og stuðla þannig að því að vítahringur refsileysis og mannréttindabrota verði rofinn. Og ég spyr: Hvaða hlutverk ætlar Ísland sér? Verður þátttaka í undirbúningi að slíkum glæpadómstól eða jafnvel fjárframlög til hans eins og kallað er eftir við aðildarríki Sameinuðu þjóðanna?

[15:15]

Í fyrra var utanrrh. nokkuð bjartsýnn og jákvæður varðandi dómstólinn og ég spyr um afstöðu hans í dag miðað við það að við höfum ekki séð okkur fært að taka þátt í undirbúningsfundunum.

Virðulegi forseti. Það hefur verið ákall til alþjóðasamfélagsins vegna blóðbaðsins í Alsír. Amnesty og læknar án landamæra sendu ákall frá sér 15. okt. sl. Samtökin fara fram á að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komi saman til að leita leiða til að binda endi á hörmungarnar í Alsír. Ekkert ríki hefur enn þá farið þess á leit að mannréttindanefndin verði kölluð saman. Allt að 80 þúsund manns hafa verið drepnir í Alsír á síðustu árum en alþjóðasamfélagið hefur ekkert aðhafst til að stöðva blóðbaðið. Það er nauðsynlegt að rannsaka þau brot sem hafa átt sér stað, finna út hverjir beri ábyrgð á mannréttindabrotunum og það að bera fram óskina er yfirlýsing og þar með er tryggt að ferli fari í gang sem leiði til ákvörðunar um hvort nefndin verði kölluð saman eða ei. Þannig gæti rödd okkar virkað á alþjóðavettvangi. Ég endurtek því spurningar mínar: Hvaða hlutverk ætlar Ísland sér í stofnun alþjóðlegs glæpadómstóls sem er eitt stærsta mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hvenær verða lögð fram frumvörp um flóttamannalöggjöf sem var talað um í fyrra?

Virðulegi forseti. Í lok máls míns ætla ég að nefna tvö mál sem mér finnst mikilvæg úr skýrslu ráðherrans. Á bls. 44 er fjallað um þróunarmál og þar segir, með leyfi forseta:

,,Leita þarf leiða til að auka samstarf milli Íslendinga og þeirra stofnana Sameinuðu þjóðanna sem starfa að þróunarmálum. Auka þarf þátttöku Íslendinga í því starfi þar sem þekking þeirra nýtist best, t.d. í fiskiðnaði, jarðhita-, tækni-, orkumálum og nýtingu endurnýjanlegrar orku. Slíkt getur gefið færi á aðstoðarverkefnum sem einnig gætu tengst íslensku atvinnulífi.``

Það er alveg rétt. Við höfum gjarnan beint þróunaraðstoð okkar í þann farveg að verkefnin tengist íslensku atvinnulífi og það er kannski eðlilegt en við megum ekki einskorða okkur við það. Það hefur margoft komið fram í uppeldismálaumræðu að stuðningur við konur í þróunarlöndum er viðurkenndur stuðningur sem hefur margfeldisáhrif, að stuðningur við konur í þróunarlöndum er stuðningur við uppbyggingu og stuðningur við fjölskylduna alla á þessum stöðum. Þau verkefni sem eru nefnd hér kveikja ekki þá tilfinningu í brjósti að þarna sé verið að framkvæma það sem menn hafa verið sammála um hér að beina þróunaraðstoð í ríkari mæli til verkefna og til kvenna og þeirra verkefna sem konurnar standa að. Ég minni líka á það sem kom fram á leiðtogafundinum í Kaupmannahöfn árið 1995. Þar var lögð mjög mikil áhersla á menntun og að styðja við menntun í þróunarlöndunum og að mennta konur í þróunarlöndunum til þess að þær mundu áfram skila verki sínu og fá margfeldisáhrifin þar á.

Ég ætla líka í lokin á ræðu minni, virðulegi forseti, að vísa til annarrar setningar á bls. 44 undir Þróunarmál. ,,Á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn um félagslega þróun 1995 skuldbundu ríkisoddvitar sig til að útrýma algerri fátækt og var árið 1996 helgað baráttunni gegn fátækt.`` Spurningin vaknar hjá mér hvernig stöndum við að þessu máli. Við tökumst á um þau mál innan lands en við megum aldrei gleyma því að hlutur okkar er líka mikilvægur hvað varðar erlendar þjóðir og fátæku þróunarlöndin.