Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:20:03 (1068)

1997-11-06 15:20:03# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar alþjóðlegan glæpadómstól hefur Ísland stutt þá viðleitni að koma upp alþjóðlegum glæpadómstól og við munum styðja það áfram. Það er öllum ljóst að við getum ekki tekið þátt í slíkum undirbúningi eins og margar aðrar þjóðir en við styðjum það a.m.k. í orði en að hvaða leyti við getum stutt það með fjárframlögum eða öðrum hætti höfum við ekki tekið afstöðu til enn þá. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að slíkum dómstól verði komið upp og auðvitað verður Ísland að standa við skyldur sínar í þeim efnum eins og aðrar þjóðir, eins og við reynum að gera í sem flestum alþjóðlegum stofnunum.

Að því er varðar flóttamannalöggjöfina get ég vísað til þess sem hæstv. dómsmrh. hefur sagt og þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið og ég vænti þess að það verði hægt að koma því í framkvæmd. Ef ég man rétt minnir mig að það hafi verið á sektarmálaskrá þingsins í vetur án þess að ég geti verið með algerar fullyrðingar í þeim efnum. Ég tek undir með hv. þm. um það að okkur ber að leggja áherslu á réttindi kvenna og við höfum gert það í öllu þróunarstarfi okkar, í Namibíu, í Malaví, í Mósambík, á Grænhöfðaeyjum og við höfum stutt UNIFEM og þeirra ágæta starf sem þar hefur átt sér stað. Í þeirri áætlun sem nýlega hefur verið samin um endurbætur á þróunaraðstoð okkar og eflingu á þróunaraðstoð er sérstaklega lögð áhersla á þetta atriði, að við munum halda áfram að styðja við bakið á starfi kvenna því það er alveg rétt hjá hv. þm. að þetta skiptir miklu máli þannig að það verður sérstaklega tekið til athugunar í þessu sambandi.