Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:22:18 (1069)

1997-11-06 15:22:18# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svör utanrrh. og ég fagna því að haldið verði áfram að styðja viðleitni um að koma á laggir alþjóðlegum glæpadómstól. Ráðherrann segir að þeir geti ekki tekið þátt í undirbúningi og undirbúningsfundir eru haldnir á vegum Sameinuðu þjóðanna. Ég veit gjörla hve fáliðað okkar fólk er í sendiráðinu en gæti Ísland ekki sýnt svolítinn lit? Mér er kunnugt um að lítil ríki eins og Lesótó og Malta sitja þessa fundi til að leggja áherslu á stuðning sinn og mikilvægi þess að glæpadómstóllinn verði settur á laggir og það verður e.t.v. hægt að koma því við til þess að sýna vilja Íslands.

Ég hvet utanrrh. til þess að ganga eftir því í ríkisstjórn að frumvörpin um breytingar á lögunum um útlendinga komi hingað inn hið fyrsta svo tryggt sé að þau verði afgreidd sem lög frá Alþingi fyrir haustið.

Það er gott að heyra um verkefnin sem hafa verið studd sem snúa að konum. Hins vegar er alveg ljóst að þegar maður hlustar á ræðu ráðherrans og les skýrsluna sem ég var að hrósa að fá í hendur er ekki að sjá að áherslunni sé beint til kvenna né að þessar áherslur hafi náð inn í verkefnin á sama hátt og mörg önnur verkefni sem eru tíunduð og sem ágætt er að sjá. Nefni ég þar t.d. málefni barna og jafnréttismálin, varnir gegn afbrotum. Yfirleitt er þáttur mannréttindamála í skýrslu og ræðu utanrrh. hverju sinni afskaplega klénn og ég óska eftir að heyra í einhverri ræðu í framtíðinni að þessum málum væri gerð sérstaklega góð skil.