Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:26:23 (1071)

1997-11-06 15:26:23# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir boð utanrrh. Ég mundi gjarnan þiggja að fá upplýsingar um þau verkefni sem snúa að konum í þróunarlöndum. Ég held að fróðlegt væri fyrir okkur að kynnast því. Hins vegar er ekki aðalatriðið hvernig okkur þingmönnum er kynnt allt það sem fer fram á vegum utanríkisþjónustunnar. Það er ekki aðalatriðið heldur hitt að við höfum tilfinningu fyrir því að af hálfu Íslands sé einmitt verið að reka þá utanríkisstefnu sem okkur finnst mikilvæg og við gefum gaum ákveðnum þáttum sem eru mikilvægir en ekki alltaf jafnmikið í sviðsljósinu og aðrir.

Ég nefndi í ræðu minni að hvert einasta ríki Sameinuðu þjóðanna geti farið fram á aukafund mannréttindanefndarinnar, að það sé yfirlýsing að bera óskina fram og þar með tryggja að ferlið fari í gang sem leiðir til ákvörðunar um hvort nefndin verði kölluð saman. Ég hvet utanrrh. til þess og vona að hann heyri mál mitt að hann beiti sér fyrir því að Ísland setji óskina fram.

Ég hvet líka til þess eins og ég hef áður gert að Ísland verði hin sterka rödd mannréttinda á alþjóðlegum vettvangi. Það snýst ekki alltaf um að það séu fleiri hausar að störfum. Það snýst um með hvaða hætti við setjum mál fram. Það snýst um hvaða mál við styðjum þar sem við komum að, það snýst um atkvæðagreiðslur og yfirleitt afstöðu okkar til mála. En númer eitt, tvö og þrjú væri afskaplega sterkt ef við tækjum forustu í einhverjum málum. Við höfum möguleika á því varðandi aukafund mannréttindanefndarinnar.