Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:48:54 (1075)

1997-11-06 15:48:54# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:48]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði mér alveg ljóst hvert eðli athugasemdar þingmannsins var en því dró ég fram áherslurnar sem koma fram í skýrslu utanrrh., sem reyndar á sínum tíma lagðist ekki gegn EES-samningnum heldur sat hjá um hann, að hér eru dregnir fram þeir kostir sem fylgja þessum samningi. Og auðvitað var það svo að þeir sem voru andstæðingar aðildinni að EES kölluðu umræðuna yfirborðskennda. Þeir töldu samninginn hættulegan og þeir töldu að þetta væri pólitískur áróður en ekki efnisleg umræða. Því dreg ég það fram. Ég tek alveg undir það að það þarf að skoða hvaða áhrif EMU hefur á Evrópusambandið, hvaða áhrif EMU hefur á Ísland og hvaða áhrif EMU hefur á Norðurlönd. Þeir sem eru í Norðurlandasamstarfi eru einmitt að velta því fyrir sér og það er m.a. ástæða þess að ég nefndi í upphafi ræðu minnar, hvernig við getum komið stóru málunum sem við komum að á erlendum vettvangi með eðlilegum hætti í umræðu hér inn í þingið. Á því er, eins og þingmaðurinn tók undir með mér, verulegur skortur og vandi. Hins vegar hafa einstaklingar reynt að gera eitthvað í upplýsingum varðandi Evrópusambandið, sem er nú reyndar ekki eitthvað sem ég hef mikið rætt, ég viðurkenni það. En hér hafa verið stofnuð sérstök Evrópusamtök, til þess hugsuð að reyna að varpa ljósi á kosti og galla þannig að ekki verði sagt um þá umræðu að hún sé annaðhvort pólitískt yfirspil eða órökrétt umræða o.s.frv., eins og gjarnan er meðan stjórnmálaflokkar eru að reyna að kalla eftir því að aðrir stjórnmálaflokkar taki þátt í þessu stóra máli og taki þátt í að reyna að leggja mat á hverjir eru kostir og gallar. Því bara eftir að við höfum reynt að kortleggja það getum við tekið afstöðu og auðvitað getum við ekki gert það því málið er ekki á dagskrá.