Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:52:43 (1077)

1997-11-06 15:52:43# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins taka undir þau orð hv. þm. að það sé nauðsynlegt að forgangsraða og reyna að átta sig á því hvað skiptir mestu máli og vera á vaktinni. En þetta er það sem starfsmenn utanríkisþjónustunnar standa frammi fyrir á hverjum einasta degi. Og að sjálfsögðu standa þingmenn jafnframt frammi fyrir þessu í sínu alþjóðlega samstarfi. Það er oft gert lítið úr alþjóðlegu samstarfi þingmanna og það flokkað undir ferðalög. Svo er sem betur fer alls ekki því þingmenn eru í mjög mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu samstarfi og það er alveg útilokað að hugsa sér að starfa í lýðræðiskjörnu þjóðþingi án alþjóðlegs samstarfs. Þess vegna ber að styrkja það eins og sem við getum og að sjálfsögðu þarf utanrrn. að hjálpa til í þeim efnum og við viljum gjarnan leggja áherslu á það. Þess vegna tel ég það vera mikilvægt að hv. þm. hefur orðið var við að það stendur ekki á því. Við munum leggja áherslu á það áfram því við getum sinnt þessum mikilvægu skyldum sameiginlega sem lítil þjóð. En ef við vitum ekki hvert af öðru þá getum við ekki rækt skyldur okkar sem skyldi á alþjóðlegum vettvangi.