Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:48:09 (1087)

1997-11-06 16:48:09# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að Ísland mun aldrei ganga í Evrópusambandið öðruvísi en að þjóðin verði spurð og það ekki bara í einum kosningum heldur í tvennum kosningum því það kallar á stjórnarskrárbreytingu. (RG: Ég veit það.) Það er að mínu mati ábyrgð stjórnmálamannanna að undirbúa það mál og leggja það fyrir þjóðina. Það á ekki að byrja á því að spyrja þjóðina um eitthvað sem stjórnmálamennirnir geta ekki skilgreint. Það er mín afstaða. Ég tel að það sé flótti stjórnmálamannanna frá skyldum sínum að gera það og ég sé ekki hvernig í ósköpunum á að standa að þessu máli.

Það er enginn að banna umræðu um Evrópusambandið. Hvernig er hægt að banna umræðu í lýðræðisríki eins og Íslandi? Og það er rangt að við reynum á einhvern veg að koma í veg fyrir þessa umræðu. Ég veit ekki betur en skýrsla utanrrh. fjalli allmikið um þessi mál og ég veit ekki betur en ég hafi fjallað líka allmikið um þau í ræðu minni hér í dag. Við verðum að fjalla um þetta mál á okkar forsendum. Við getum ekki fjallað um það á forsendum Alþfl. Það verður Alþfl. sjálfur að sjá um, hvort sem hann vill gera það í samvinnu við Alþb. og Kvennalistann eða einhverja aðra. Það er mér óviðkomandi þó að ég hafi nú ekki mikla trú á því.

Að lokum: Framsfl. var í forustu í ríkisstjórn sem hóf viðræðurnar um Evrópska efnahagssvæðið. Það er staðreynd. Þær voru ekki leiddar til lykta af Framsfl. en við berum að sjálfsögðu verulega ábyrgð í því máli og höfum aldrei skotið okkur undan henni. Það er rétt að um það mál voru margvíslegar deilur hér á Alþingi og margt hefði betur mátt fara eins og í öllu. Ég er ekki að segja að það hefði ekki verið svo ef við hefðum haldið á málinu. Það er mikilvægt að á Alþingi sé lýðræðisleg umræða, að það komi fram gagnrýni og viðkomandi ráðherrar, utanrrh. á hverjum tíma, búi við aðhald hvaða nafn svo sem þeir bera og menn fari þá rétt með það nafn.