Aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:07:20 (1092)

1997-11-11 14:07:20# 122. lþ. 22.2 fundur 35. mál: #A aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:07]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson kom með nokkra gagnrýni á það mál sem hér er til umræðu og byggði þá gagnrýni sína á því m.a. að lagt væri til í þáltill. að tekinn yrði upp skyldusparnaður, eins konar frjáls skyldusparnaður --- hvað sem það hugtak merkir. Í raun og veru er ekki verið að setja á laggirnar neinn skyldusparnað, það er verið að bjóða upp á sparnaðarleið. Í texta þáltill. stendur að starfsfólki í fyrirtækjum verði boðið að stofna sérstaka sparnaðarreikninga með hæstu ávöxtun. Það er sem sagt verið að opna þarna möguleika, valkost, en ekki skyldusparnað. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu og taki ekki afstöðu til málsins á grundvelli einhvers misskilnings.

Þá benti hv. þm. einnig á að tæknileg vandkvæði gætu verið á því að halda til haga hlutabréfum á því gengi sem væri á hlutabréfunum þegar sparnaðartímabilið hæfist. Þetta eru ekki tæknileg vandkvæði. Það er svo að fyrirtæki geta átt hlutabréfin sjálf og þau geta lagt slík hlutabréf til hliðar og geymt þau kaup fyrir starfsfólk þannig að það er ekkert í sjálfu sér sem mælir gegn því að fyrirtækin geri þetta enda er þetta framkvæmt þannig í Bretlandi. Hugsanlega þyrfti að rýmka þá möguleika sem við höfum hér á Íslandi til þess að fyrirtæki eigi hlutabréf í sjálfum sér en tækilegir möguleikar í þessa veru eru vandséðir ef það er það sem hv. þm. hefur fyrst og fremst verið að velta fyrir sér.