Aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:13:45 (1095)

1997-11-11 14:13:45# 122. lþ. 22.2 fundur 35. mál: #A aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:13]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að lesa þessa tillögu fyrst hv. þm. hefur ekki kynnt sér þá tillögu sem hann er að flytja hér. Það stendur hér, í framhaldi af því sem ég sagði áðan: ,,... bundnir verði til þriggja til sjö ára, hjá viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Reikningarnir verði á nafni starfsmanna og verði föst fjárhæð af launum þeirra lögð inn á þá.`` Þetta er skyldusparnaður. Þetta er samningur, sem menn gera til þriggja til sjö ára, ef menn vilja spara með þessum tiltekna hætti. Hann er frjáls vegna þess að menn geta ákveðið sjálfir hvort þeir stofna til hans og menn hafa upphæðina frjálsa til ráðstöfunar í lok tímabilsins. Þetta er ekkert annað en skyldusparnaður, frjáls skyldusparnaður, þannig að þingmaðurinn verður aðeins að hugsa sína eigin tillögu.

Í öðru lagi segir hann með réttu: Þetta er ekki lagafrv. Hvað er þingmaðurinn að tala um? Það segir hér: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagasetningu er hafi það að markmiði að ...`` Síðan er lýst, eins og mjög algengt er í þáltill., hvernig sú lagaumgjörð á að vera. Er þingmaðurinn að segja hér: Ja, það er ekkert að marka þetta, þetta er svona þáltill., þetta er svona stefna að auka sparnað í þjóðfélaginu. Ég skal taka undir það og ég hef tekið undir ýmislegt í greinargerðinni. Ég hef hins vegar bent á að þessi till. er ekki vel hugsuð, hún er ekki tillaga sem mundi örva sparnað. Það er hægt að taka aðra þætti sem kæmu þar að meira gagni.

[14:15]

Ég er fús til að vinna með þingmönnum stjórnarliða eða annarra að því máli, en þá verða menn að hafa hlutina í réttu samhengi. Ég vil benda á, varðandi þær fjárfestingar sem hér eru og þann mikla viðskiptahalla sem hér er upp á 40 milljarða, að þrátt fyrir það sem við köllum miklar fjárfestingar í okkar þjóðlífi, þá er þetta samt ekki nema rétt meðaltal í OECD og það sýnir best í hvers konar ógöngur við erum komin með okkar efnahagsstefnu á mörgum sviðum sé hugsað lengra fram á við.