Áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:46:05 (1100)

1997-11-11 14:46:05# 122. lþ. 22.7 fundur 53. mál: #A áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:46]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Sú till. til þál. sem ég mæli hér fyrir um áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun, er mál sem kom fyrir síðasta þing, var flutt snemma á síðasta þingi og var þá vísað til hv. umhvn. Svo fór að hv. umhvn. tók ekki málið fyrir fyrr en nokkuð langt var liðið á þing en leitaði þá umsagna. Allmargar umsagnir bárust um það fyrir þinglok. Rætt var í nefndinni hvort tök væru á að afgreiða málið út úr nefndinni á jákvæðan hátt. Mat forustu nefndarinnar, hv. formanns og ríkisstjórnarliða í hv. umhvn., var að ekki væri ráðrúm til þess þó það lægi nokkuð skýrt fyrir með mjög jákvæðum umsögnum um efni þess frá ýmsum þeim er málið snertir. Hins vegar var um það rætt að taka málið fljótlega fyrir á næsta þingi ef það yrði endurflutt.

Þessi tillaga felur í sér eins og fram kemur í tillögutextanum að Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra í samvinnu við félagsmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga að auðvelda sveitarfélögum landsins að hefja skipulega vinnu að áætlunum um sjálfbæra þróun með hliðsjón af ,,Dagskrá 21``. Dagskrá 21 er sem kunnugt er framkvæmdaáætlun Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í umhverfismálum eins og hún var mótuð á þinginu í Rio de Janeiro 1992.

Stefnt verði að því að sveitarfélög sem ekki hafa þegar byrjað slíkt starf hefji það sem fyrst og ekki síðar en vorið 1998. Miðað verði við að slíkar áætlanir geti legið fyrir hjá sem flestum sveitarfélögum landsins á árinu 2000.

Í greinargerð er varpað ljósi á málið, m.a. rakin helstu atriði sem koma fram í Dagskrá 21 að því er varðar hlutverk sveitarstjórna í undirbúningi og framkvæmd sjálfbærrar þróunar og ætla ég ekki að taka tíma í að rekja það sérstaklega hér og nú. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vísa til fáeinna umsagna um málið frá síðasta þingi sem sýna mjög eindreginn stuðning við málið. Þar er fyrst fyrir að taka afgreiðslu frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tók þetta fyrir 18. apríl 1997 og segir í sinni umsögn sem er stutt, með leyfi forseta:

,,Stjórnin samþykkir að mæla með samþykkt tillögunnar.``

Ég tel að það varpi skýru ljósi á stöðu málsins að því er varðar þá sem það mest varðar, sveitarstjórnirnar, að svo eindreginn stuðningur skuli koma frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sá stuðningur var raunar ítrekaður af formanni stjórnar sambandsins á ráðstefnu sem var haldin um skylt efni á Egilsstöðum í byrjun júní 1997, en Egilsstaðabær er eitt af fáum sveitarfélögum á landinu sem hafa tekið skilvirkt á þessum málum og unnið að áætlun sem kölluð er umhverfisverkefni Egilsstaðabæjar og er auk þess í norrænni samvinnu eða sérstöku samnorrænu verkefni þar sem Færeyingar starfa með Íslendingum að athugun og stefnumótun varðandi þessi mál. Á þessari ráðstefnu á Egilsstöðum var um þetta rætt frá mörgum hliðum. Þar voru einnig færeyskir fulltrúar sem ræddu málin. Á þessum vettvangi ítrekaði formaður stjórnar sambandsins, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, stuðning stjórnarinnar við þetta og að ástæða væri til að afgreiða málið jákvætt. Ég vænti m.a. í ljósi þess að það verði góðan stuðning að fá við málið þegar hv. nefnd tekur málið fyrir að nýju.

Ég get nefnt að ýmis samtök sveitarfélaga hafa lýst jákvæðri afstöðu við málið. Stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir t.d.: ,,Stjórn SSH er sammála þingsályktuninni.`` Í umsögn Hollustuverndar ríkisins kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Stofnunin vill hér með lýsa yfir fyllsta stuðningi við málefnið. Jafnframt mun stofnunin eftir fremsta megni leggja sveitarfélögum lið varðandi þá þætti á verksviði Hollustuverndar ríkisins sem slík áætlanagerð tekur til.``

Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum gerir ekki athugasemd við tillöguna og Landvernd lýsir yfir eindregnum stuðningi og fulltingi. Náttúrufræðistofnun Íslands gerir ekki athugasemd við tillöguna. Náttúruvernd ríkisins styður fram komna þáltill. um áætlanir sveitarfélaga um sjálfbæra þróun. Rannís, sem er heiti á Rannsóknarráði Íslands, fjallar um málið og segir í lok umsagnar: ,,Með hliðsjón af ofansöguð mælir Rannsóknarráðið með því að sú samvinna sem hvatt er til í þáltill. verði efld.`` Ég get látið þetta nægja, virðulegur forseti, í tilvitnanir í umsagnir við tillöguna, nema kannski er rétt að geta þess að umhvrn. segir í skriflegri umsögn sinni m.a., þar sem fram kemur að ráðuneytið telur að byrjað sé að vinna að málinu, með leyfi forseta:

,,Með vísan til þess sér ráðuneytið ekki brýna ástæðu til að samþykkja sérstaka þáltill. um málið en setur sig ekki á móti því enda mundi hún væntanlega styrkja þetta starf sem þegar er hafið, sérstaklega fylgi fjárveitingar með.``

Þetta er úr umsögn umhvrn., sem barst hv. umhvn.

Eins og hér hefur komið fram er mjög eindregin stuðningur frá umsagnaraðilum á síðasta þingi við málið. Ég treysti því að þetta mál fái efnislega umfjöllun í hv. umhvn. og fái afgreiðslu fyrr en síðar á þessu þingi því að málið liggur skýrt fyrir og er ekki flókið að efni til.