Umboðsmaður jafnréttismála

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 15:33:05 (1105)

1997-11-11 15:33:05# 122. lþ. 22.12 fundur 82. mál: #A umboðsmaður jafnréttismála# frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[15:33]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um umboðsmann jafnréttismála. Frv. gengur út á að stofnað verði til embættis jafnréttismála sem hafi það hlutverk að hafa eftirlit með jafnréttismálum hér á landi og hvernig fylgt er fyrirmælum alþjóðasamninga um jafnrétti kynjanna sem Ísland er aðili að. Embættið skal einnig stuðla að því að náð verði markmiðum laga er varða jafnrétti kynjanna, m.a. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og vinna sérstaklega að bættri stöðu kvenna. Flutningsmenn með mér að máli þessu eru hv. þingmenn Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Svavar Gestsson.

Þetta mál lá fyrir síðasta þingi og var vísað til hv. félmn. sem ég legg til að fái málið aftur til meðferðar til þess að vinna betur úr því en tókst á síðasta þingi. Af nefndarinnar hálfu var aflað umsagna um málið frá nokkrum aðilum. Nokkuð bar á því hjá umsagnaraðilum að vísað væri til þess að hér væri athyglisvert frv. á ferðinni sem þyrfti að fá athugun, en þeir töldu að það væri eðlilegur þáttur í endurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem þyrfti hugsanlega að fara í heildarendurskoðun eða bíða þess máls.

Síðast voru lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla endurskoðuð árið 1991. Það var líklega árið 1990 sem aðalvinnan fór fram í nefnd sem hv. þáv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir skipaði. Þar átti ég sæti og á þeim vettvangi, í þeirri stjórnskipuðu nefnd einmitt, lagði ég til að stofnað yrði til embættis umboðsmanns jafnréttismála. Við þá endurskoðun laganna var ekki tekið undir það að ráðist yrði í að setja á fót embætti umboðsmanns jafnréttismála, ekki væri stuðningur við það í þeirri ríkisstjórn sem þá starfaði að taka það skref eða það kannski ekki tímabært. En ýmsar ágætar lagfæringar voru gerðar á umræddum lögum, m.a. að minni tillögu, þar á meðal að setja á fót kærunefndina sem síðan hefur verið virk og ætla ég annars ekki að fara út í þau efni frekar. En ég er áfram þeirrar skoðunar, og við flutningsmenn þessa máls, að vegna mikilvægis jafnréttismálanna sé rétt að stofna til þessa embættis umboðsmanns fyrir þau.

Frv. dregur upp ramma um málið, verkefni og stöðu umboðsmanns. Ég ætla ekki að fara að rekja það í einstökum atriðum því að áður hefur verið mælt fyrir málinu í þinginu en vek athygli á því að samkvæmt 9. gr. er gert ráð fyrir að forsrh. hafi eftirlit með fjárreiðum embættisins og embættið falli undir forsrn. Það er eitt af því sem hefur verið nefnt að væri álitaefni hjá sumum þeirra sem gáfu umsögn um frv. Þetta var gert að yfirlögðu ráði og til þess m.a. að gæta samræmis við umboðsmann barna. Ekki er mjög langt síðan löggjöf var sett um umboðsmann barna og var sem sagt höfð hliðsjón af því en umboðsmaður barna heyrir undir forsrn.

Hinn möguleikinn var að umboðsmaður jafnréttismála félli undir félmrn. sem fer með löggjöfina um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kom það vissulega til athugunar og álita, en niðurstaða okkar flutningsmanna var að fylgja leiðsögn fyrri löggjafar eða þeirrar löggjafar sem sett var um umboðsmann barna.

Ég tel alveg nauðsynlegt að þingið taki afstöðu til málsins og ef það er sjónarmið t.d. í hv. félmn. að eðlilegt sé að mál af þessu tagi bíði eftir heildarendurskoðun löggjafarinnar, þá finnst mér að viðkomandi þingnefnd þurfi einnig að hafa á því skoðun hvort tímabært sé að hefja endurskoðun jafnréttislaganna sem við köllum stundum svo, laganna nr. 28/1991. Auðvitað er það ákvörðunarefni hæstv. félmrh. hvort efnt verði til endurskoðunar á þessari löggjöf á vegum ráðuneytisins en mér finnst að þingið megi gjarnan hafa á því skoðun. Ég mun fljótlega beina þinglegri fyrirspurn til hæstv. félmrh. um hvað hann hyggst fyrir í þessum efnum því að ég tel að upp hafi safnast fjölmörg álitaefni sem þurfi að taka á í tengslum við löggjöfina um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar er réttarþróun í gangi víða um lönd sem við þurfum að fylgjast með og taka afstöðu til. Ég nefni eitt álitaefni gagnvart löggjöf, það er kynferðisleg áreitni og það sem lýtur að því máli, en það var nánast ekki komið á dagskrá þegar lögin voru síðast endurskoðuð eða ekki í sama mæli og nú. Og ef menn telja að ákvörðun um umboðsmann jafnréttismála eigi að tengjast eða falla undir endurskoðun þessara laga, sem ég er síður en svo sammála að sé nauðsynlegt, ég tel að það séu öll efni á því að setja lög um þetta embætti hér og nú, en þá ég hef að sjálfsögðu ekki á móti því að um það sé fjallað ef vinna hefst mjög fljótlega um endurskoðun laganna nr. 28/1991.

Það er athyglisvert virðulegur forseti, þegar annars er litið til málaflokksins, jafnréttismálanna, að fylgjast með því að það hefur verið nokkuð rætt á Norðurlöndunum, þar sem menn hafa sums staðar reynslu af embætti jafnréttismála, hvernig á skuli haldið. Það eru allólík stjórnkerfi þessara mála í Danmörku og Noregi svo að dæmi sé tekið og sýnist sitt hverjum um reynsluna. Í Danmörku, svipað og hér, eru hagsmunaaðilar sem svo má kalla, réttindafélög, hvort sem það eru kvenréttindafélög eða önnur slík sem sinna jafnréttisbaráttu, aðilar að tilnefningu fulltrúa í jafnréttisráð. Það er mikið umhugsunar- og álitaefni hvort halda eigi þannig á málum að frjáls félagasamtök sem hafa málaflokk á sínum snærum séu bundin inn í stjórnkerfi eða ekki. Ég vil ekki kveða upp neina dóma um það. Mér finnst í raun vera mjög eðlilegt að reynt sé að gera það en stundum fylgir böggull skammrifi og ég held að þess gæti hér í okkar stjórnkerfi að segja sem svo að um leið og frjáls félagasamtök hafi tök á því og eigi kost á að tilnefna fulltrúa í slík ráð eða nefndir, þá séu þau gerð ábyrg og sagt sem svo: Þið eigið þarna ykkar fulltrúa og hvað gerið þið? Þetta setur þessi ágætu samtök oft í dálítið erfiða aðstöðu þó að það gefi um leið möguleika. Og fyrir félög sem hafa ekki eðlilegan stuðning fjárhagslega, t.d. af opinberri hálfu, er oft hægara sagt en gert að halda uppi því starfi og þeim þrýstingi sem þyrfti að vera.

Það er líka athyglisvert að virða einmitt fyrir sér afstöðu íslenskra stjórnvalda varðandi fjárhagslegan stuðning við frjáls félagasamtök sem er allsendis ónógur og á þeim málum haldið með allt öðrum hætti en t.d. í Noregi þar sem frjáls félagasamtök njóta verulegs stuðnings af opinberu fé og eru í rauninni miklu ríkari þáttur í almennri umræðu í samfélaginu og geta helgað sig starfinu af meiri krafti en verður þegar félögin berjast í bökkum með halda uppi lágmarksstarfsemi m.a. af fjárhagslegum ástæðum.

Þetta vildi ég hafa nefnt hér sem umhugsunarefni í tengslum við þetta mál þó að það tengist ekki beint því frv. sem hér er til umræðu.

Ég vil, virðulegur forseti, leggja áherslu á að ég tel að það hefði betur verið horfið að því ráði 1991 að setja á fjót embætti umboðsmanns jafnréttismála. Þá hefðum við haft reynslu af því nú. Það væri komin dýrmæt 5--6 ára reynsla af slíku starfi. Það varð ekki að ráði þá. Ég er enn þeirrar skoðunar og við flutningsmenn þessa máls að þetta skref beri að stíga til að styrkja málaflokkinn, styrkja stöðu jafnréttismálanna, jafnstöðu karla og kvenna og baráttuna með því að stofna til þessa embættis. Að því lýtur það mál sem hér liggur fyrir þinginu.

Ég ítreka: Við leggjum til að málið fari til hv. félmn. að umræðu lokinni og ég vænti þess að efnisleg niðurstaða fáist um málið nú á þinginu og ef nefndin treystir sér ekki til þess að afgreiða frv., þá gefi hún a.m.k. leiðsögn um það hvert halda skuli. Mér finnst að í svona stórum málum þurfi þingnefndir í rauninni að botna mál, ekki svæfa þau í nefndum án þess að fram komi einhver niðurstaða. Þingnefndir mættu gjarnan skila einhvers konar áliti til þingsins um viðhorf í málum og hvernig á skuli haldið þó að það sé jafnvel ekki í formi beinna nefndarálita. Gæti það átt við um fjölda mála sem koma til þingnefnda og er skilið við þau hálfrædd í allt of ríkum mæli. Ég dreg ekki í efa að það er áhugi á þessu máli og málaflokknum en það skortir samt afar mikið á að menn hafi komist í einhverja sæmilega höfn. Þar hallar enn á og konur í samfélagi okkar eiga almennt séð á flestum sviðum mjög undir högg að sækja.