Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 16:17:00 (1109)

1997-11-11 16:17:00# 122. lþ. 22.13 fundur 84. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[16:17]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst af máli hv. síðasta ræðumanns að við erum ekki alveg sammála um breytinguna og við því er ekkert að gera. Það hefur gengið svo til áður að við höfum ekki verið sammála um leiðir að því er varðar sameiningu sveitarfélaga þó við séum örugglega sammála um markmiðið sem er að efla og styrkja sveitarfélögin og landsbyggðina. En mér finnst gæta misskilnings, ég vil nota það orð, í máli hv. þm. þegar hann túlkar raunverulega ákvæði þessa frv. að verið sé að heimila sameiningu án undangenginna kosninga. Ég minni hv. þm. á það af því að hann er þingmaður Vestfirðinga að þetta er sama leið og sú sem lögð var til að frumkvæði samstarfsnefndar á Vestfjörðum í tengslum við sameiningu sem þar var framkvæmd á árinu 1995 en þá kom fyrir 120. löggjafarþing einmitt sambærilegt ákvæði. Það var orðað svo:

,,Jafnframt kom fram að samstarfsnefndin teldi að sá möguleiki væri fyrir hendi að íbúar eins eða tveggja sveitarfélaga gætu fellt tillögu nefndarinnar og að óbreyttum lögum yrði þá að hefja nýja tillögugerð og efna til nýrra kosninga.``

Þess vegna taldi samstarfsnefndin nauðsynlegt að setja slíkt ákvæði. Ég er sammála samstarfsnefndinni. Mér finnst ekki eðlilegt og ekki í anda lýðræðis þegar við erum að tala um þrjú eða fjögur sveitarfélög og síðan gæti minnsta sveitarfélagið, lítið fámennt sveitarfélag, komið í veg fyrir sameiningu hinna tveggja eða þriggja sem vilja sameinast, og það kannski aftur og aftur. Mér finnst það andhverfan á lýðræðinu þegar málum er skipað svo að eitt lítið sveitarfélag geti komið þar í veg fyrir stærri sameiningu. Þess vegna er þessi tillaga flutt.

Ég spyr hv. þm. hvort hann hafi verið á móti þessu ákvæði á 120. löggjafarþingi þegar sameiningin á Vestfjörðum átti sér stað og fram kom þessi lagabreyting að ósk samstarfsnefndarinnar?