Tilraunaveiðar á ref og mink

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 16:47:29 (1114)

1997-11-11 16:47:29# 122. lþ. 22.15 fundur 95. mál: #A tilraunaveiðar á ref og mink# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[16:47]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er nokkuð athyglisvert mál á ferðinni, borið fram af miklum þungavigtarhópi í þinginu, því það er hvorki meira né minna en gjörvallur þingmannahópur Vestf. sem leggur þetta fram. Ég hef auðvitað tækifæri til að ræða málið í umhvn. þar sem ég á sæti. Það vill nú svo til að umhvn. er einmitt þessa dagana að fjalla um eyðingu refa og minka og kynna sér hvaða áhrif breytingar á þátttöku ríkisins í kostnaði vegna eyðingu refa hafi haft. En ég vil minna á það að ekkert hefur breyst varðandi þátttöku ríkisins í kostnaði vegna eyðingu minks. Það breyttist ekki neitt, enda gegnir talsvert öðru máli með minkinn en refinn. Við lítum mink ekki alveg sömu augum og ref, enda minkurinn aðskotadýr í íslenskri náttúru að okkar mati.

Ég vil aðeins segja varðandi þessa till. sem kann alveg að eiga rétt á sér, a.m.k. sumar þær fullyrðingar sem koma fram í grg. að mér finnst svolítið öfug röð koma fram í tillögugreininni. Þetta minnir á það sem menn segja stundum: Hér á að skjóta fyrst og spyrja svo. Ég vil snúa þessu við og spyrja fyrst og það segi ég alveg af gefnu tilefni. Þegar þessi mál voru mikið til umræðu í fyrra, um það hvort breyta ætti kostnaðarþátttöku ríkisins við eyðingu refa, og margir sem settu fram efasemdir um að refaveiðarnar hefðu þá þýðingu eða færu fram á svo markvissan hátt að í raun væri réttlætanlegt að haga þeim eins og gert hefur verið, þá lögðu margir og þar á meðal sú sem hér stendur, áherslu á að það vantaði rannsóknir til þess að byggja á allar þær fullyrðingar sem fram komu í því efni og komu raunar fram hér líka. Það vantar rannsóknir um þetta efni og þær þarf. Ef snögglega á að hefja veiðar á þessum slóðum aftur, þá þarf það að styðjast við rannsóknir.

Fyrrverandi veiðistjóri, Páll Hersteinsson, sem nú starfar á vegum háskólans að rannsóknum, hefur staðið fyrir rannsóknum sem kynnu að koma að gagni og farið er að vinna að, t.d. í sambandi við könnun á tjóni af völdum refa í æðarvörpum, í samvinnu við Líffræðistofnun Háskóla Íslands og með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Sá ágæti maður hefur sett fram hugmyndir að rannsóknum af ýmsu tagi, m.a. um fæðuval refa. Því það er ekki sannað að refurinn eyði mófugli á sama hátt og fullyrt hefur verið af þeim sem hafa áhyggjur af þróuninni í þeim efnum. Sömuleiðis þarf að kanna betur hvort það eigi við rök að styðjast að refurinn sé að dreifa sér meira um landið, eins og haldið hefur verið fram. Og þar sem hér var ítrekað vitnað í máli hv. 1. flm. til orða Ásbjarnar Dagbjartssonar veiðistjóra þá var hann einmitt á fundi umhvn. í gær og lagði fram ýmsar upplýsingar sem vert er að hyggja að. Þar á meðal var rætt um fjölgun refa og hvort skýra mætti hana t.d. með því að á friðuðum svæðum væru eins konar uppeldisstöðvar og refurinn flæddi þaðan yfir á nálæg svæði. Þær sögur eru allar úr lausu lofti gripnar. Það er ekkert sem styður þessa fullyrðingu. Raunar er fullyrt, í skjali sem veiðistjóri lagði fram á fundi hjá okkur í gær, að refir sem hafa verið merktir í friðlandinu á Hornströndum hafi aldrei veiðst utan þess. Þannig að ekki er nú stuðningur í því efni og reyndar benda tilraunir, sem hafa verið gerðar hér á landi, til þess að refurinn sé mjög staðbundinn.

En þar sem hv. ræðumaður vitnaði til þess að varað hefði verið við því að hætta snögglega öllum veiðum þá er það alveg rétt. Það er talið mjög óheppilegt. Rannsóknir hafa sýnt að aukið veiðiálag getur haft þau áhrif að stofninn bregðist við á þann hátt að geldum læðum fækki, þ.e. að frjósemi þeirra aukist, fleiri læður geti því tekið þátt í að endurnýja stofninn og fjöldi yrðlinga í hverju goti fari vaxandi. Þannig hafa áhrif veiðanna orðið til þess nýliðunargeta stofnsins varð meiri. Þetta er þekkt um ýmsar aðrar dýrategundir, m.a. sumar tegundi hvala, að álag á stofninn getur valdið því að kvendýrið bregðist þannig við að það verði frjósamara og færara um að viðhalda stofninum. Þetta er mjög merkilegt atriði og það eru ekki öll dýr sem haga sér þannig, og nú er ég í raun og veru komin langt út fyrir mína fræðilegu þekkingu. Margt er athyglisvert í þessu sambandi og ég vil leggja áherslu á að til þess að breyta um stefnu í þessum efnum þurfum við að hafa fleiri rannsóknir að byggja á. Aðeins það vildi ég leggja inn í þessa umræðu.